Þúsund lítrum af jólabjór hellt niður

Þúsund lítrum af jólabjórnum Þvörusleiki var helt í ræsið hjá Borg brugghúsi á dögunum. Ástæðan? Bjórinn stóðst ekki gæðakröfur bruggmeistaranna.

Árni Long, bruggmeistari Borgar, segir að hann myndi ekki senda frá sér bjór sem hann er ósáttur við. „Þetta er auðvitað ákveðið sorgarferli fyrir bjóráhugmenn eins og okkur — en á sama tíma eitthvað sem maður þarf að þjálfast í að eiga við sem bruggmeistari hjá framsæknu brugghúsi,“ segir hann. „Þessir 1.000 lítrar af jólabjórnum stóðust einfaldlega ekki þær gæðakröfur sem við setjum okkur.“

Sorgardagarnir hafa verið fleiri hjá Borg þar sem 400 lítrar af Surti nr. 8 hurfu ofan í holræsin fyrir skömmu. Surtur nr. 8 kom á markað á þorranum árið 2012 og seldist upp á örfáum klukkustundum, samkvæmt upplýsingum frá Ölgerðinni.

Árni tekst á við sorgina með því að tala um missinn:

Við höfum verið að gera tilraunir með tunnuþroskun á bjór og þarna vorum við búnir að fylla tvær skoskar viskítunnur af Surti nr. 8. Það fór ekki betur en svo að þær héldu hvorug vökva og við horfðum á eftir lítrunum yfirgefa bygginguna hvern á fætur öðrum – sumir dagar eru bara verri en aðrir.

Hjá Borg hafa menn þó ekki látið sorgina taka völdin því brugghúsið sendi nýlega frá sér 27. bjórinn sinn: Grétu. Leyfum bruggmeisturunum að lýsa Grétu sjálfir:„Fjórar korntegundir framkalla fínstillta bragðtóna súkkulaðis, toffís og lakkríss. Gréta er fyrsti Baltic Porter bjórinn sem bruggmeistarar Borgar senda frá sér en í þessum bjórstíl koma heim og saman ólíkar brugghefðir Austur-Evrópu og Bretlandseyja, í dökkum en sætum bjór.“

Þar höfum við það. Skál!

Auglýsing

læk

Instagram