Þúsundir boða koma sína á mótmæli við Austurvöll, Sigmundur Davíð hyggst ræða við fjölmiðla

Rúmlega átta þúsund manns hafa boðað komu sína á mótmæli á Austurvelli klukkan 17 í dag. Tæplega sjö þúsund í viðbót hafa lýst yfir áhuga á viðburðinum á Facebook.

Í texta sem fylgir viðburðinum kemur fram að ríkisstjórnin sé rúin trausti og það væri andlýðræðislegt af henni að ætla sér að sitja áfram. „Ríkisstjórninni ber að virða lýðræðislegar grundvallarreglur og fara frá sem fyrst,“ segir einnig í textanum.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hyggst ræða við fjölmiðla síðar í dag. Þetta kemur fram á vef RÚV en hann lýsti þessu yfir fyrir utan Alþingishúsið þar sem hann var á leið inn á fund fyrir hádegið.

Nú standa þingflokksfundir yfir í Alþingishúsinu og í hádeginu hyggst stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis funda um málið. Minnihlutinn hyggst leggja fram vantrauststillögu á Sigmund Davíð og ríkisstjórn hans á Alþingi í dag en þingfundur hefst klukkan 15.

Til stóð að Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og Sigmundur Davíð sætu fyrir svörum. Bjarni mætir ekki á fundinn og Vísir hefur eftir Svanhildi Hólm Valsdóttur, aðstoðarmanni hans, að fjögurra tíma seinkun hafi verið á innanlandsflugi Bjarna í Bandaríkjunum í gær. Hann missti því af tengifluginu hingað til lands.

Hér má sjá Kastljósið frá því í gær

Auglýsing

læk

Instagram