Tryggvi kominn á radarinn hjá liðum í NBA, ESPN segir ótrúlega sögu hans

Tryggvi Snær Hlinason, körfuknattleiksmaður hefur heldur betur slegið í gegn á skömmum tíma en í síðustu viku hann valinn í fimm manna úrvalslið Evrópumóts U-20 ára í körfubolta. Tryggvi vakti gríðarlega athygli á mótinu fyrir frammistöðu sína en hann átti líklega stærstan þátt í því að Ísland komst í 8-liða úrslit í fyrsta sinn í sögunni.

Bandaríski íþróttamiðillinn ESPN tók eftir vasklegri framgöngu Tryggva á mótinu og sá ástæðu til að fjalla um hann og hans sögu sérstaklega og seg­ir hann eiga mögu­leika á að kom­ast í NBA-deild­ina í Banda­ríkj­un­um. Bárðdælingurinn geðþekki, sem byrjaði að æfa körfubolta fyrir rúmum þremur árum með Þór á Akureyri hefur heldur betur skotist inn á radarinn hjá stærstu liðum heims. Hann samdi nýverið við stórlið Valencia á Spáni.

Í greininni fjallar blaðamaðurinn ítarlega um sögu Tryggva en hann ólst upp á bænum Svartárkot í Bárðardal þar sem hann byrjaði ungur að vinna. Það var svo ekki fyrr en hann flutti til Akureyrar og hóf nám Í Verkmenntaskólanum á Akureyri sem hann prófaði körfubolta.

Rætt er við besta körfuboltamann Íslands, Jón Arnór Stefánsson sem ber honum söguna vel. „Hann er óslípaður dementur sem getur náð langt,“ segir Jón sem leikur með Trygga í íslenska A-landsliðinu.

Í greininni er segir lika frá fyrstu æfingu Tryggva hjá Þór en hann þurfti að hringja í þjálfarinn, Bjarka Ármann Oddsson áður en æfingin hófst því hann fann ekki íþróttahúsið. Bjarki brá á það ráð að sækja Tryggva á nærliggjandi bensínstöð og var hissa þegar hann sá Tryggva sem þá var vel yfir tveir metrar á hæð. „Ég trúði ekki mínum eigin augum, ég spurði hvort hann gæti troðið og hann fór létt með það,“ sagði Bjarki í samtali við ESPN.

Nú aðeins rúmum þremur árum síðar eru lið í NBA deildinni farin að fylgjast með Tryggva en fróðlegt verður að fylgjast með framhaldinu hjá þessum stóra og stæðilega sveitastrák.

Auglýsing

læk

Instagram