Um helmingur Íslendinga hlynnt því að Ágúst Ólafur segi af sér

Á bilinu 51 til 52 prósent Íslendinga eru hlynnt afsögn Ágústs Ólafs Ágústssonar, alþingismanns. Þá eru á milli 31 prósent og 32 prósent í meðallagi hlynnt/andvíg og um 17% andvíg. Þetta kemur fram í könnun Maskínu.

Ágúst Ólafur tók sér tveggja mánaða frí frá þingstörfum á síðasta ári eftir kynferðislega áreitni. Trúnaðarráð Samfylkingarinnar áminnti Ágúst Ólaf eftir að Bára Huld Beck, blaðamaður Kjarnans, sagði frá kynferðislegri áreitni hans.

Mun fleiri voru hlynntir afsögn sexmenninganna úr Miðflokknum og Flokki fólksins í desember í kjölfar umdeildra ummæla þeirra á Klaustri bar. Þar voru 74 til 91 prósent Íslendinga hlynnt því að þingmennirnir myndu segja af sér.

Með hækkandi aldri eru Íslendingar líklegri til þess að vera andvígir afsögn Ágústs. Íslendingar með heimilistekjur lægri en 550 þúsund eru hlynntastir því að Ágúst Ólafur segi af sér eða um 60 prósent. Tekjuhæsti hópurinn er andvígastur afsögn hans eða um 25 prósent.

Kjósendur Framsóknarflokksins og Pírata eru hlynntastir afsögn Ágústs Ólafs en kjósendur Miðflokksins andvígastir.

Svarendur voru 817 talsins og komu úr Þjóðgátt Maskínu, sem er þjóðhópur fólks dreginn með tilviljun úr Þjóðskrá og svarar á netinu. Svarendur eru af báðum kynjum, alls staðar að af landinu og á aldrinum 18 ára og eldri. Gögnin eru vigtuð með tilliti til kyns, aldurs og búsetu. Könnunin fór fram dagana 14.-28. desember 2018.

Auglýsing

læk

Instagram