Uppgötvuð fyrir tilviljun á tónleikum í Bolungarvík: „Þetta er búið að vera ólýsanlegt“

Gítarleikarinn Björn Thoroddsen uppgötvaði söngkonuna Önnu Þuríði Sigurðardóttur fyrir tilviljum á tónleikum sem hann kom fram á í Bolungarvík í fyrra. Í dag eru þau búin að taka upp plötu sem er væntanleg ásamt því að fjölmargir tónleikar eru á dagskránni.

Björn heyrði af Önnu í Bolungarvík þar sem hann kom fram á tónleikum fyrir ári síðan. „Ég hafði frétt af því að nokkrar ungar söngkonur vildu syngja og var Anna þar á meðal,“ segir hann. „Ég heyri strax að þarna er um að ræða söngkonu með virkilega flotta rödd.“

Anna segist lítið hafa sungið, nema á litlum viðburðum í heimabæ sínum, Bolungarvík. „Þetta er búið að vera ólýsanlegt ég veit ekki alveg hvernig ég á að orða það öðruvísi,“ segir hún.

Ég hugsa að ég hafi lært meira á þessu ári en ég hef gert öll hin árin til samans. Ég hef lítið verið að syngja nema í litlum viðburðum í Bolungarvík. Svo er ég fengin til að syngja hjá honum og í framhaldi af því koma þessi tækifæri.

Bandaríski tónlistarmaðurinn Robben Ford gerði plötuna ásamt Birni Thoroddsen en á henni má meðal annars finna lög eftir göðsögnina Bob Dylan.

Anna var ekki alveg með á hreinu hvaða menn þetta voru þegar hún var beðin um að syngja inn á plötuna. „Ef ég á að vera alveg hreinskilin þá vissi ég ekki hverjir þetta voru. Ekki fyrr en mér var sagt það. Sem var ágætt þar sem ég var kannski minna stressuð,“ segir hún.

Björn rifjar upp fyrstu samskipti sín við Önnu sem var ekki með mikla reynslu úr tónlistarbransanum þegar þau hófu samstarfið. „Það má segja að okkar fyrstu samskipti hafi verið hún að móðga mig,“ segir hann léttur.

„Ég spurði hana eftir að við tókum lagið hvort við ættum að renna yfir það aftur. Hún horfði á mig og spurði svo hvort ég þyrfti að æfa mig meira.“

Stuttu seinna hafði Robben Ford samband og óskaði eftir samstarfi við Björn. Saman þurftu þeir að finna söngkonu og þá kom Anna til sögunnar.

„Það var þá sem ég plata Önnu, sem aldrei hafði komið í stúdío, að koma og taka upp smá demo fyrir auglýsingu sem ég átti að vera vinna að. Sem var nátturulega bara lygi. Ég tek upp smá söngbrot með henni og sendi strax út á Robben og hann svarar tíu mínútum síðar um að þarna sé röddin sem hann sé að leita að,“ segir Björn.

„Við mættum til Nashville í vor til að taka upp og hún massar þetta eins og hún hafi aldrei gert neitt annað.“

Þau koma fram á tónleikum í Háskólabíói 22. október. Þaðan fara þau meðal annars til London og halda þar tónleika. Á næsta ári er svo stefnan sett á tónleikaferðalag um Bandaríkin.

Anna segir að samstarfið við Björn hafi verið virkilega gott. „Ég er svona ennþá að átta mig á því að þetta sé að gerast og bíð enn eftir því að ég fari að vekja mig en vonandi getum við Björn unnið saman í framhaldinu,“ segir hún.

„Draumurinn er að halda áfram að syngja. Þetta er það sem ég vil gera,“ segir Anna að lokum.

Hlustaðu á Önnu syngja lagið Leave it all to You sem er að finna á umræddri plötu

Auglýsing

læk

Instagram