Verzlingum meinað að leggja í stæði við Kringluna, hóta að mæta með nesti á Stjörnutorg

Nemendur í Verzlunarskóla Íslands komu í morgun að keðjum og skiltum sem meinuðu þeim að leggja ákveðin í bílastæði við Kringluna. Mikill hiti er í Verzlingum vegna málsins og ætla einhverjir að sniðganga þjónustu Stjörnutorgs á morgun og koma með nesti.

Brynja Sigurðardóttir, formaður hagsmunaráðs Nemendafélags Verzlunarskólans, staðfestir í samtali við Nútímann að mikil ólga sé í skólanum vegna málsins. „Það var allt lokað og læst fyrir okkur í morgun og enginn skildi neitt í neinu,“ segir hún.

Hún segir að bílastæðin við Verzló séu alltaf full og nemendur hafi því flestir lagt bílum sínum við Kringluna, nánar tiltekið hjá bókasafninu og Stjörnutorg. Í morgun var hins vegar búið að loka fyrir bílastæðin, bæði í kjallara og á hæðinni fyrir ofan. „Það voru ógeðslega margir seinir í morgun og mikið öngþveiti,“ segir hún.

Eftir fund með Inga Ólafssyni, skólastjóra Verzló, sendi hagsmunaráðið póst á framkvæmdastjóra Kringlunnar. Brynja segir hann hafa beint þeim tilmælum til nemenda að leggja á bílastæðinu vestanmegin við Kringluna, hjá Hagkaup og Sjóvá þar sem bílastæðin við bókasafnið væru mjög mikilvæg þeim sem ættu leið þangað.

Brynja segir að það hafi allt orðið brjálað þegar hún birti þessar upplýsingar í lokuðum hóp nemenda Verzló á Facebook í morgun.

Það eru allir frekar pirraðir yfir þessu. Fólk er að tala um að við séum stærstu viðskiptavinir Stjörnutorgs og sumir vilja fara í stjörnutorgsverkfall. Það er meira að segja komið hashtag á Twitter (#stjörnutorgsverkfall).

Loks segir hún einhverja nemendur hafa hvatt til þess að þau mæti með nesti á Stjörnutorg í hádeginu á morgun og taki þar öll sætin.

Auglýsing

læk

Instagram