Vísar ummælum Ásmundar um „afdankaða“ bílaleigubíla á bug: „Þetta er bara fjarri sannleikanum“

Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, vísar ummælum Ásmundar Friðrikssonar um „afdankaða“ bílaleigubíla sem standa þingmönnum til boða til föðurhúsanna. Í umræðu síðustu daga um aksturskostnað þingmanna hefur Ásmundur sagt að bílaleigubílarnir sem eru í boði fyrir þingmenn séu „afdankaðir“ og jafnvel ónýtir. Þessu hafnar Bergþór.

Í reglum um þingfararkostnað kemur fram að þegar alþingismaður þarf að aka meira en 15 þúsund kílómetra á ári í starfi sínu skal hann fá til afnota bílaleigubifreið sem skrifstofa Alþingis leggur til. Ásmundur ók rúmlega 47 þúsund kílómetra í fyrra á eigin bíl og fékk um 4,6 milljónir endurgreiddar í aksturskostnað. Hann hefur verið gagnrýndur fyrir að fylgja ekki reglum þingsins.

Sjá einnig: Fjórar ástæður fyrir því að aksturspeningamálið er raunverulegur skandall

Ásmundur var viðtali í Kastljósi á RÚV í gær. Hann var meðal annars spurður hvers vegna hann fylgir ekki þessum reglum og sagðist hann gera kröfur um hverskonar bíl hann ekur. „Ég ætla ekki að fara að keyra á ónýtum bílaleigubílum keyrðum hundruð þúsund kílómetra,“ sagði hann meðal annars í Kastljósi.

Þá sagðist hann í Morgunútvarpinu á dögunum vita til þess að þingmenn hafi fengið „afdankaða“ bílaleigubíla, keyrða 400 þúsund kílómetra og hafi lent í miklum vandræðum.

Bergþór Karlsson, framkvæmdastjóri Bílaleigu Akureyrar, segir að bílarnir sem leigan býður upp á séu fullkomlega öruggir. „Það er ekki stafkrókur réttur í þessu sem Ásmundur segir. Bílarnir okkar eru allir á negldum dekkjum, nema menn óski eftir öðru. Við vísum þessu því algjörlega til föðurhúsanna,“ segir Bergþór.

Það er öllum velkomið að koma í heimsókn til okkar og sparka í dekk.

Bergþór segir ummæli Ásmundar dæma sig sjálf og að þeir bílar sem standi þingmönnum til boða séu allir tveggja ára eða yngri og eknir á bilinu 20 til 30 þúsund kílómetra. „Þetta er bara fjarri sannleikanum og þarna er hann að reyna að verja sjálfan sig,“ segir Bergþór í samtali við Nútímann.

Auglýsing

læk

Instagram