Vörpulegur Bjarni Ben í síðum „hot pants“ ýtti biluðum bíl úr umferðarteppu

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra lét verkin tala í gær þegar hann hjálpaði til við að ýta biluðum bíl úr umferðarteppu í Reykjavík. Þór Breiðfjörð segir frá atvikinu á Facebook-síðu sinni og segist í samtali við Nútímann vilja þakka forsætisráðherra fyrir með því að bjóða honum á sýningu.

Þór segir í færslu sinni um atvikið að gærdagurinn virtist ætla að vera nokkuð afslappaður. „Svo tóku örlögin stjórnina og bíllinn okkar dó,“ segir hann.

Faðir minn kom til bjargar í umferðarösinni og við vorum að reyna að bjarga litlu gráu VW-dollunni minni úr bílaröðinni og koma á hana taumi þegar óvæntur maður kom til aðstoðar.

Var þar á ferðinni Bjarni Benediktsson.

„Út úr jeppa stekkur vörpulegur maður með góða greiðslu. Var hann nokkuð sportlega klæddur niður, í einhvers konar langar „hot pants“ og íþróttaskó úr trimmdeildinni,“ segir Þór og bætir við að Bjarni hafi umsvifalaust tekið sér stöðu við bílinn ásamt föður Þórs, sem sat sjálfur undir stýri. Saman komu þeir bílnum úr umferðarteppunni.

„Kappinn vindur sér orðalaust með bros á vör upp í jeppann og veifar í kveðjuskyni. Við feðgar erum komnir í skjól og getum því hafið að festa dráttarkaðal við bílinn.“

Þór segir að mínúturnar hafi svo liðið án þess að faðir hans sagði orð. „Eftir tvær mínútur get ég ekki orða bundist: „Nú verður hann Gunnlaugur Ragnarsson, vinur minn, óalandi og óferjandi,“ segi ég. Þá glottir gamli. Ég vil þakka Bjarna Ben forsætisráðherra fyrir aðstoðina og Gunnlaugur, vertu þægur.“

Í þakklætisskyni vill Þór bjóða Bjarna á sýninguna 9 til 5 sem er nemendasýning Söngleikjadeildar Söngskóla Sigurðar Demetz.

Auglýsing

læk

Instagram