Örskýring: Af hverju er ákvörðun Trump að færa sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael svona hræðileg?

Um hvað snýst málið?

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur tilkynnt að sendiráð Bandaríkjanna í Ísrael verði flutt frá Tel Aviv til Jerúsalem. Með þeirri ákvörðun hafa Bandaríkin viðurkennt Jerúsalem sem höfuðborg Ísraels. Ákvörðunin er tekin þvert á aðvaranir alþjóðasamfélagsins. 

Hvað er búið að gerast?

Margir þjóðarleiðtogar hafa lýst yfir mikilli andstöðu við ákvörðuninni og telja að með þessu sé Trump að setja tilraunir til að koma á friði milli Ísraela og Palestínumanna í uppnám.

Bæði Ísraelar og Palestínumenn líta á Jerúsalem sem höfuðborg sína. Borginni er skipt upp og í henni er að finna helga staði fyrir bæði múslima og gyðinga. Í þeim sáttatillögum sem unnið hefur verið eftir er meðal annars gengið út frá því að austurhluti Jerúsalem verði höfuðborg Palestínu. 

Ljóst þykir að ákvörðunin muni hafa afleyðingar því strax í morgun greindi fréttastofan Al Jazeera frá því að Ismail Hanya, leiðtogi palestínsku samtakanna Hamas, hefur mótmælt ákvörðuninni harðlega.

Meðal þeirra sem hafa lýst sig andvíga ákvörðuninni eru Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, Angela Merkel, kanslari Þýskalands, og Emmanuel Macron, forseti Frakklands. Þá sagði Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra í samtali við RÚV að hann hafi áhyggjur af ákvörðun Trump og að hún hafi valdið sér vonbrigðum. 

Hvað gerist næst?

Átta af fimmtán ríkjum sem eiga sæti í  Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna hafa beðið um neyðarfund í ráðinu vegna málsins. Ráðið kemur saman til fundar á morgun til að ræða málið.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram