Örskýring: Hvað í fjandanum var Mogginn að birta og af hverju er fólk reitt yfir því?

Um hvað snýst málið?

Morgunblaðið birti í Staksteinadálki sínum í gær pistil eftir bloggarann og verkfræðingin Halldór Jónsson. Halldór ber dansæfingar í MR á árum áður við mál í Bandaríkjunum þar sem maður er sakaður um gróft kynferðisofbeldi. Birtingin vakti bæði furðu og reiði.

Hvað er búið að gerast?

Staksteinar eru nafnlaus vettvangur ritstjórnar Morgunblaðsins fyrir stuttan pistil í punktaformi. Staksteinar vekja oft talsverða athygli enda talið að Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, birti þar oftast skoðanir sínar á mönnum og málefnum.

Halldór Jónsson er verkfræðingur og bloggar á Moggablogginu. Tilefni skrifa hans sem voru endurbirt í Staksteinum eru að sálfræðiprófessorinn Christine Blasey Ford hefur sakað Brett Kavanaugh, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur tilnefnt sem hæstaréttardómara, um að reyna að nauðga sér.

Hún segir árásina hafa átt sér stað í teiti þegar þau voru táningar og sakar hann um að loka sig inni í herbergi, halda sér niðri, þukla á sér og reyna að afklæða sig á meðan vinur hans fylgdist með.

Pistill Halldórs þykir vera einhvers konar tilraun til að gera lítið úr slíkri hegðun og það vakti því furðu að sjá pistilinn endurbirtan í skoðanadálki ritstjórnar Morgunblaðsins.

„Þegar ég hugsa til baka hvernig maður hegðaði sér á dansæfingum í MR. Búinn að tendra sig upp á brennivíni og Camelsmók bauð maður stelpunum upp og reyndi allt til að vanga þær og trukka og helst að komast í sleik,“ skrifaði Halldór og hélt áfram:

„Þessi hegðun myndi koma í veg fyrir að ég yrði samþykktur í embætti ef Trump myndi vilja hygla mér eins og Kawanough eða hvernig það er stafað. Sá kall hegðaði sér eitthvað svona á menntaskólaböllum fyrir einum þrjátíu árum. Nú ætla demókratarnir að nota það til að hindra að þessi dóni komist í Hæstarétt Bandaríkjanna.“

Hvað gerist næst?

Margir hafa gagnrýnt endurbirtingu Morgunblaðsins, meðal annars Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. Hún birti pistil í Morgunblaðinu í dag þar sem hún gagnrýnir að blaðið hafi birt gamaldags viðhorf Halldórs: „Hegðun sem er ekki í lagi í dag var held­ur ekki í lagi þá. Það hef­ur ekk­ert með póli­tísk­an rétt­trúnað að gera, held­ur al­menna virðingu fyr­ir fólki,“ segir hún.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram