Örskýring: Ha? Af hverju er helgin svona mikilvæg fyrir Sigmund Davíð?

Um hvað snýst málið?

Um helgina fer fram tvöfalt kjördæmisþing Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi, kjördæmi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar. Hann er formaður flokksins og fyrrverandi forsætisráðherra.

Á þinginu verður valið á lista fyrir Alþingiskosningarnar.

Hvað er búið að gerast?

Sigmundur Davíð hefur gefið kost á sér í efsta sæti listans.

Það hafa þau Höskuldur Þórhallsson, Líneik Anna Sævarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir líka gert. Sigmundur og Höskuldur vilja fyrsta sætið, Þórunn vill 1.-2. sæti og Líneik 1.-3. sæti.

Höskuldur og Sigmundur sóttust báðir eftir efsta sætinu í kjördæminu árið 2013 og hafði sá síðarnefndi betur. Höskuldur varð einnig að lúta í lægra haldi fyrir Sigmundi í formannskosningum flokksins árið 2009.

370 manns hafa atkvæðisrétt á kjördæmisþinginu um helgina. Nái enginn frambjóðendanna yfir helmingi atkvæða í fyrsta sæti verður kosið á milli tveggja efstu frambjóðendanna í það sæti.

Sigmundur hefur verið sérstaklega umdeildur síðustu mánuði og hefur Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður flokksins, meðal annars stigið fram og sagt að Sigmundur eigi að víkja. Niðurstaða kjördæmisþingsins um helgina verður því vísbending um stöðu Sigmundar innan flokksins.

Dósent í stjórnmálafræði hefur sagt að þingið gæti reynst ögurstund, bæði fyrir Sigmund og Höskuld. Sagði hann að erfitt gæti reynst fyrir Sigmund að sækjast eftir formannsembættinu á flokksþingi Framsóknar sem er framundan tapi hann, þá hafi hann ekki umboð frá kjördæmi sínu.

Hvað gerist næst?

Búast má við upplýsingum um hver leiðir listann um hádegi á morgun.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram