Örskýring: Hvað gerði Mjólkursamsalan rangt og af hverju er verið að sekta hana?

Um hvað snýst málið?

Samkeppniseftirlitið hefur sektað Mjólkursamsöluna (MS) um 480 milljónir króna fyrir að misnota markaðsráðandi stöðu sína.

Það á fyrirtækið að hafa gert með því að selja keppinautum sínum hrámjólk til framleiðslu á mjólk á óeðlilega háu verði á sama tíma og MS og aðilar tengdir fyrirtækinu fengu hráefnið undir kostnaðarverði.

Hvað er búið að gerast?

Samkeppniseftirlitið komst að þeirri niðurstöðu í september 2014 að MS hefði brotið samkeppnislög með ofangreindum hætti og ákvað að fyrirtækið ætti að greiða 370 milljónir króna í sekt.

Áfrýjunarnefnd samkeppnismála vísaði málinu hins vegar aftur til eftirlitsins vegna nýrra gagna sem lögð voru fram við áfrýjun málsins. Eftir að hafa rannsakað málið aftur komst Samkeppniseftirlitið að þeirri niðurstöðu að brot MS hefðu verið alvarlegri en áður var talið og hækkaði sektina upp í 480 milljónir króna.

Hvað gerist næst?

MS hefur þegar mótmælt sektinni harðlega og ætlar að áfrýja. Fyrirtækið telur að niðurstaðan byggi á rangri túlkun á samspili samkeppnislaga og búvörulaga.

MS þarf þó að greiða sektina í nánustu framtíð og forsvarsmenn fyrirtækisins hafa sagt að kostnaðinum vegna þessa verði velt yfir á neytendur með hærra vöruverði. Stjórnarformaður MS segir að vöruverð þurfi að hækka um tvö prósent til að greiða sektina.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Þetta er svokölluð gestaörskýring frá Kjarnanum. 

Auglýsing

læk

Instagram