Örskýring: Systurnar Hlín og Malín hafa verið ákærðar fyrir fjárkúgun. Hvernig báru þær sig að?

Um hvað snýst málið?

Héraðssaksóknari hefur ákært systurnar Hlín Einarsdóttur og Malín Brand fyrir að hafa reynt að kúga fé út úr Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni, þáverandi forsætisráðherra og eiginkonu hans, Önnu Sigurlaugu Pálsdóttur í lok maí árið 2015.

Þetta kemur fram í vefútgáfu Stundarinnar.

Hvað er búið að gerast?

Í ákærunni kemur fram að systurnar hafi annars vegar sent Jóhannesi Þór Skúlasyni, þáverandi aðstoðarmanni Sigmundar, fjárkúgunarbréf og hins vegar Önnu Sigurlaugu.

Í bréfinu til Jóhannesar kröfðust systurnar 7 og hálfrar milljónar frá Sigmundi. Yrði fjárhæðin ekki greidd ætluðu þær að greina frá fjárhagsmálefnum Vefpressunnar, félags Björns Inga Hrafnssonar en hann er fyrrverandi kærasti Hlínar.

Bréfið var sent 20. eða 21. maí í fyrra og átti að afhenda peninginn 25. maí. Jóhannes sá bréfið aftur á móti ekki fyrr en 1. júní.

Seinna bréfið var sent um viku eftir að fyrra bréfið var sent. Það var sent á heimili Önnu og Sigmundar og kröfðust systurnar nú átta milljóna. Peningana átti að afhenda í trékassa og fylgdu GPS-hnit af afhendingarstaðnum, auk ljósmynda.

Þær voru handteknar af lögreglu sunnan Vallahverfis í Hafnarfirði 29. maí í fyrra, þar sem átti að afhenda peningana. Þær játuðu að hafa sent bréfið.

Daginn eftir að greint var frá málinu í fjölmiðlum voru Malín og Hlín kærðar fyrir aðra fjárkúgun. Þær sökuðu mann um gróft kynferðisbrot gegn Hlín og kúguðu af honum 700 þúsund krónur.

Málin voru sameinuð og lauk rannsókn á þeim í maí á þessu ári en hún tafðist þar sem beðið var eftir niðurstöðum úr tæknirannsókn erlendis frá. Í framhaldinu voru málin send til embættis héraðssaksóknara.

Hvað gerist næst?

Málið verður þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur 14. nóvember.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram