Örskýring um Panamafélagið Guru Invest, Ingibjörg og Jón Ásgeir í Panama-gögnunum

Um hvað snýst málið?

Í Panamaskjölunum, sem Kjarninn, Stundin og Kastljós vinna nú úr í samstarfi við Reykjavík Media, kemur fram að Ingibjörg Pálmadóttir á félagið Guru Invest á Panama sem virðist hafa umtalsverða fjármuni til umráða.

Jón Ásgeir Jóhannesson, eiginmaður hennar, hafði prókúru til að ráðstafa eignum félagsins með þeim hætti sem honum sýnist.

Hvað er búið að gerast?

Í umfjöllun fjölmiðlanna hefur verið upplýst að Guru Invest hefur hins vegar fjárfest í fjöldamörgum viðskiptaverkefnum í Bretlandi og á Íslandi á undanförnum árum og miklir fjármunir hafa streymt þaðan. Auk þess hefur félagið komið að greiðslu skulda félaga sem voru í eigu fjölskyldu Jóns Ásgeirs.

Bæði Jón Ásgeir og Ingibjörg hafa verið fyrirferðamikil í íslensku viðskiptalífi í áratugi og átt hluti í fjöldamörgum fyrirtækjum hérlendis og erlendis. Við bankahrunið urðu mörg félög sem þau komu að gjaldþrota og lítið hefur fengist upp í mörg hundruð milljarða króna kröfur í félögin.

Jón Ásgeir hefur sagt við fjölmiðla að hann ætti ekki neina leynda sjóði á suðrænum eyjum og hefði ekki komið neinum eignum undan.

Hvað gerist næst?

Ekkert liggur fyrir um hvort eitthvað ólöglegt sé við ofangreint. Von er á frekari fréttum um eignir Íslendinga á aflandseyjum næstu vikur og mánuði.

Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Þetta er svokölluð gestaörskýring frá Kjarnanum. Smelltu hér til að skoða umfjöllun Kjarnans um Panamaskjölin.

Auglýsing

læk

Instagram