Zika-veiran útskýrð í stuttu máli, Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi

Um hvað snýst málið?

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi vegna Zika-veirunnar sem finnst nú í 24 löndum í Ameríku.

Hvað er búið að gerast?

Á vefnum Hvatinn.is kemur fram að Zika-veiran hafi fyrst greinst í frumskóginum í Úganda árið 1947.

Zika-veiran berst með moskítóflugum af tegundinni Aedes aegypti og smitast á milli manna þegar flugurnar sjúga blóð. Helstu einkenni sýkingarinnar eru hiti, útbrot, tárubólga og vöðvaverkir. Einkenni koma yfirleitt fram 2-7 dögum eftir bit og standa yfir í 2-7 daga.

Hvatinn greinir frá því að aðeins um einn af hverjum fjórum sem smitast af veirunni sýnir einkenni en sérfræðingar hafa áhyggjur af hugsanlegum tengslum á milli veirunnar og fæðingu barna með dverghöfuð. Ekkert hefur verið staðfest í þeim efnum.

Ekkert bóluefni er til gegn veirunni og meðferð felst aðallega í hvíld og verkjastillingu. Ekki er vitað til þess að veiran hafi dregið smitaða til dauða nema í einstaka tilfellum þar sem sjúklingur þjáðist af undirliggjandi sjúkdómi.

Hvað gerist næst?

Embætti sóttvarnalæknis hefur gefið út ráðleggingar þar sem þungaðar konur eru hvattar til að fresta för til landa í Suður-Ameríku þar til eftir fæðinguna.

Þessi örskýring er byggð á umfjöllun Hvatans. Hvatinn er fréttamiðill sem sérhæfir sig í vísindafréttum héðan og þaðan. Örskýringar eru 200 orða fréttaskýringar Nútímans um mál sem mikið er fjallað um. Sendu okkur póst ef þú ert með hugmynd að örskýringu.

Auglýsing

læk

Instagram