Að skila skömminni

Ég var að segja upp í vinnunni minni sem framkvæmdastjóri Samtakanna ’78 eftir sex mánuði í starfi. Fyrir því liggja margar ástæður. Ein er sú að mig langar að taka lögmannsréttindin, fara í doktorsnám og vinna að mannréttindum þannig. Önnur ástæðan, er baksaga, sem ég veit ekki hvort ég þori að segja frá. Það rignir yfir mig skilaboðum frá fólki sem þykir vænt um mig og vill vita hvort það sé ekki allt í lagi með mig. Fólki sem þekkir þessa baksögu og er umhugað um mína velferð.

Ég verð að koma þessu frá mér en ég veit ekki hvort ég muni nokkurn tímann birta þetta. Ef þú ert að lesa þá hef ég ákveðið að standa með mér. Vitandi að ég kem til með að fá holskefluna af skítkasti kommentakerfisins yfir mig. Reiðina frá fólki sem vill ekki heyra að gott fólk beiti líka ofbeldi. Reiðina frá fólki sem mun kenna mér um að hafa eyðilagt heilög samtök. Reiðina frá fólki sem kann ekki að aðgreina fólk og gjörðir.

Ég var í ofbeldissambandi við fyrrum vinnustaðinn minn, Stígamót. Ég var ráðin inn til að gera Stígamót aðgengilegri fyrir fatlaða brotaþola ofbeldis. Sú staðreynd að ég er sjálf brotaþoli kynferðisofbeldis og hef notað þjónustu Stígamóta í minni batavinnu taldist kostur. Eða alveg þangað til það var notað gegn mér.

Ég er ráðin inn á þeim grundvelli að á Stígamótum ríki flatur strúktúr og að allur starfshópurinn taki sameiginlegar ákvarðanir. Þannig er það ekki í raun. Það er svona þykjustunni lýðræði þar sem við þykjumst hlusta á raddir allra en við vitum öll hver ræður. Það fer eftir skapi hverju sinni hversu vel er tekið í hugmyndir frá öðrum.

Ég man hvernig ég fékk strax ónotatilfinningu á fyrsta starfsmannafundinum þar sem sú sem öllu ræður skammaði starfskonu eins og hund fyrir framan alla, fyrir yfirsjón sem taldist alvarleg að mati hæstráðanda. Ég sat í hring með átta öðrum konum, brosti vandræðalega og fann kvíðahnútinn taka sér bólfesti í maganum. „Svona er þetta á Stígamótum, við eigum að geta rætt öll mál í þaula“ varð mantran og ég reyndi að kaupa hana.

„Þetta er besti og versti vinnustaður í heimi“ sagði ég oft við vini mína þegar ég var innt eftir því hvernig væri að vinna á Stígamótum. Ég var með rúmlega hálfa milljón í mánaðarlaun fyrir 30 klst vinnuviku, vann með ótrúlega skemmtilegu og flottu baráttufólki við að gera heiminn að betri stað. En á sama tíma var ég að hlusta á fólk lýsa sínum stærstu og verstu áföllum og reyna láta hina sérstöku vinnustaðamenningu meika sens. Á Stígamótum er enginn ráðningarsamningur, engar verklagsreglur og engin starfslýsing.

Ég upplifði það ítrekað að vera sett fyrir verkefni með engum fyrirmælum en uppskera skammir fyrir að hafa farið út fyrir ákveðið verklag sem var annað hvort óljóst, eða ég ekki látin vita af fyrr en eftir á. Fyrstu skammirnar mínar fékk ég fyrir að panta túlka fyrir heyrnarlausa á ráðstefnu sem ég stóð fyrir um ofbeldi gagnvart fötluðum konum. Ég hafði víst ekki leyfi til að ráðstafa svona miklum peningum af fé Stígamóta án þess að bera það undir stjórn. Alveg sama þótt það hefði gleymst að segja mér það, þá var ábyrgðin einhvern vegin mín. Ég hefði átt að spyrja.

Á Stígamótum er unnið gríðarlega mikið og gott starf. Stígamót hafa verið brautryðjandi í að taka umræðuna um kynferðisofbeldi úr skugganum og þögninni og yfir í að skapa samfélag þar sem brotaþolar skila skömminni. Ég ætla taka þessa flottu brotaþola mér til fyrirmyndar og skila skömminni, en fyrst og fremst til Stígamóta af því að fólkið sem vinnur þar, af öllu fólki, á að vita betur.

Á Stígamótum er ekki unnið mikið faglegt starf. Því er ítrekað haldið fram að allir starfsmenn hafi háskólamenntun sem nýtist í starfi. Það er ekki rétt. Ég sé ekki hvernig t.d. bókmenntafræði eða ferðamálafræði nýtist sem faglegur grunnur í ráðgjafarvinnu með brotaþolum kynferðisofbeldis. Á Stígamótum fara engar árangursmælingar fram á líðan þeirra skjólstæðinga sem þangað leita. Þær árangursmælingar sem gerðar fást úr einni Masters rannsókn um líðan fólks sem var að koma í fyrsta viðtal samanborið við líðan fólks sem hefur farið í fjögur viðtöl eða fleiri. Það hefur líka verið gerð Cand.psych rannsókn á áfallastreitu og sjálfsskaðahegðun þeirra sem leita og hafa lengi verið í viðtölum á Stígamótum. Tölfræðin þar er sem svimandi há, en við tölum ekki um það. Það eru óþægilegar staðreyndir, það selur ekki.

Ég var án efa mjög erfiður starfsmaður. Mér var sagt að maður ætti ekki að hika við að láta eigin skoðanir í ljós, koma með hugmyndir og vera skapandi. „Svona er þetta á Stígamótum, við eigum að geta rætt öll mál í þaula“. Eða þangað til maður bendir á óþægilegu staðreyndirnar.

Mér fannst t.d. ófaglegt að allur starfshópur Stígamóta hittist aðra hverja viku og ræði um mál skjólstæðinga sinna, oft með nafni. En þeim finnst það nauðsynlegt því „við eigum að geta haldið á þessu öll saman.“

Mér fannst ófaglegt að mér hafi verið tjáð nöfn á fjölmörgum þjóðþekktum einstaklingum sem sakaðir hafa verið um að brjóta kynferðislega á þeim sem leitað hafa til Stígamóta. Ísland er pínulítið land og ég sé ekki hvers ég er bættari að búa yfir þessum upplýsingum. En þeim finnst það nauðsynlegt því „við eigum að geta haldið á þessu öll saman.“

Og mér finnst sérstaklega ófaglegt að stundum var verið að re-trámatisera samstarfsfólk sitt með því að koma í hóphandleiðslu með erfiðustu og viðbjóðslegustu kynferðisofbeldismálin og lýsa því með grafískum lýsingum hvernig skjólstæðingur þeirra var beittur ofbeldi.

Þessu reyndi ég að vekja máls á eftir að áfallasálfræðingur hafði komið til að halda fyrirlestur um áfallastreitu í starfi. Sálfræðingurinn mælti með því að grafískar lýsingar ættu heima í einkahandleiðslu en hóphandleiðsla ætti að vera meira á hagnýtu nótunum og til að fá speglun.

Í stað þess að taka umræðuna út frá faglegum grunni og velta fyrir sér kostum og göllum þess að vera með grafískar lýsingar í hóphandleiðslu snerist öll umræðan um mig og hvað þetta hljómaði „afleiðingarlegt!“ Já ég er með afleiðingar kynferðisofbeldis og já ég hef verið með áfallastreitu og sótt meðferð hjá sérhæfðum áfallasálfræðingi. En hvað þýðir það? Er þá ekki hægt að taka mark tillögum frá mér um breytt fyrirkomulag handleiðslu? Er þá í lagi að gera lítið úr mér sem manneskju og útskýra mig sem veika, brotna og ónýta í starfið, sem er einmitt það sem Stígamót gefa sig út fyrir að gera EKKI gagnvart brotaþolum ofbeldis. Einstaklega merkilegur tvískinningur þar.

Botninn tók svo úr í hóphandleiðslu þann 5. október í fyrra. Þá var ég tekin fyrir og skömmuð fyrir framan allan starfshópinn, hæstráðandi tjáði pirring sinn út í mig, talaði um að ég væri ekki að skilja hvernig Stígamót virkuðu (ansans vesen fyrir mig að vera ekki skyggn þar sem ég fæ oft ekki upplýsingar fyrr en eftir á) og hellti úr skálum reiði sinnar. Ég brotnaði niður fyrir framan alla og fimm mínútum seinna var hóphandleiðslan búin. Daginn eftir bað ég hæstráðanda um að ræða við mig undir fjögur augu. Ég sagði að í mínum bókum héti það andlegt ofbeldi að taka fólk svona fyrir, sérstaklega fyrir framan alla. Mér var þá tjáð að það væri svo skrýtið með mig, ég væri svo klár en stundum hegðaði ég mér bara eins og ég væri fimm ára. Ég tók svo sannarlega undir að ég upplifði allavega að hæstráðandi skammaði mig eins og ég væri fimm ára. Við sammæltust um að reyna leysa málin.

Eftir að hafa rætt þessa uppákomu við fjölskyldu og vini, eineltisfulltrúa Vinnumálastofnunar, og vinnusálfræðing frá stéttarfélaginu mínu, BHM sendi ég tölvupóst á allan starfshóp Stígamóta þar sem ég óskaði eftir aðkomu óháðra vinnusálfræðinga. Vinnueftirlitið sagði að það væri þeirra vinnuregla til að taka út samskipti á vinnustaðnum til að meta eineltismenningu. Að öðrum kosti vildi ég fá að semja um starfslok. Þennan póst sendi ég þann 10. október. Áður en honum var svarað var búið að taka af mér ráðstefnuferð til Berlínar sem átti að fara á vikuna á eftir og afbóka öll viðtölin mín. Þegar ég mætti til vinnu daginn mætti ég skelkuðum samstarfsmönnum og öskureiðum hæstráðanda og á endanum var ég send heim þar til afstaða yrði tekin til beiðni minnar. Á þeim tímapunkti var lokað fyrir tölvupóstinn minn og stofnaður nýr aðgangur að honum svo starfsfólk Stígamóta kæmist þar inn til að finna upplýsingar um fræðslu sem ég átti að vera með í FB daginn eftir.

Ég fékk ekki svar fyrr en að vinnusálfræðingur BHM hringdi þangað til að athuga hvort búið væri að taka ákvörðun. Honum var tjáð að Stígamót sæju enga ástæðu til að kalla til óháða vinnusálfræðinga og litið væri á bréfið mitt sem uppsögn. Sama dag fékk ég sent nýtt lykilorð inn á tölvupóstinn minn. Þegar lögfræðingur BHM heyrði af þessu bauðst hann til að fara fyrir mína hönd til að semja um starfslok. Á þeim fundi héldu fulltrúar Stígamóta fast í þá útskýringu að í bréfinu mínu fælist uppsögn. Lögfræðingurinn mótmælti því og stakk upp á sex mánaða starfslokasamningi. Fundinum lauk með að fulltrúar Stígamóta sögðust ætla bera það undir stjórn. Rétt fyrir mánaðarmót var aftur lokað fyrirvaralaust á tölvupóstinn minn og ég fékk sent ábyrgðarbréf í pósti frá stjórn Stígamóta þar sem stjórnin taldi best að segja mér upp fyrst það væri á reiki hvort ég hefði sjálf sagt upp.

Þessi framkoma var mér gríðarlegt áfall. Af öllu því fólki sem ég vann með í tvö og hálft ár var aðeins ein starfskona sem þorði að hafa samband við mig á facebook. Mér leið eins og ég hefði labbað úr vottum Jehóva og verið útskúfað úr samfélaginu. Starfshópurinn sem við töluðum um sem Stígamótafjölskylduna og setti like og komment hjá hvert öðru í gríð og erg, gjörsamlega hvarf af sjónarsviðinu. Hæstráðandi henti mér af vinalistanum sínum og önnur starfskona gekk skrefinu lengra og blokkaði mig.

Ég gerði mitt besta til að bera höfuðið hátt. Sótti um annað starf sem ég fékk og varð framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78. Ég hellti mér út í nýja starfið af öllum lífs og sálarkröftum og brann svo út. Á hálfu ári. Ég er aftur komin með áfallastreitu og gamlar afleiðingar kynferðisofbeldisins hafa blossað upp með þeirri ömurlegu sjálfsmynd sem því fylgir. „Ég er ekki nóg.“ „Það er eitthvað að mér.“ „Ég á ekkert gott skilið.“ Þetta er það sem ofbeldi gerir. Það grefur undan tilverurétti þess sem fyrir því verður. Ég er samt í góðum höndum. Ég er í þeirri forréttindastöðu að geta borgað fyrir eigin áfallameðferð. Aftur. En ríkust er ég af fjölskyldu og vinum sem grípa mig þegar ég hrasa og styðja við bakið á mér eins lengi og ég þarf til að komast aftur á fætur. Handan við hornið eru nefnilega spennandi tækifæri, sem ég ætla stökkva á. En núna ætla ég bara að einbeita mér að því að láta mér batna og skila skömminni.

Skammist ykkar þið sem vinnið á Stígamótum og beitið svo sjálf ofbeldi og gerið lítið úr fólki fyrir að vera með afeiðingar kynferðisofbeldis. Skammst ykkar fyrir að bregðast við ákalli um hjálp vegna eineltis á vinnustað með því að reka viðkomandi. Skömmin er alfarið ykkar!

Auglýsing

læk

Instagram