Ættir þú að skammast þín? Hvernig við skömmum og skömmumst okkar …

Öll skömmum við og þekkjum tilfinningu þess að skammast okkar. Þegar ég heyrði mitt eigið bergmál í skömmum dóttur minnar sem lét eina dúkkuna sína heyra það um daginn fór um mig veruleg ónotatilfinning. Getur verið að ég tali svona við annað fólk? Hvar hefur hún lært þetta? Þá mundi eftir brilljant bók sem ég las fyrir nokkru síðan, Í nándinni  eftir Guðbrand Árna Ísberg sálfræðing, en þar skrifar hann m.a. um mikilvægi innlifunar og samkenndar fyrir góð tengsl og samskipti. Ég leitaði til Guðbrandar Árna og hann var fús að svara nokkrum spurningum um skömmina og skammirnar.

Hvernig skilgreinir þú skömm?

„Skömm er allt í senn tilfinningaleg, líkamleg, hugræn og hegðunarleg viðbrögð við þeirri upplifun að hafa gert eitthvað sem öðru fólki mislíkar. Sömuleiðis finnum við til skammar þegar við upplifum að hafa gert eitthvað sem er í ósamræmi við það sem okkur er dýrmætt og við metum mikils.“

Hver eru tengsl þess að skamma einhvern og valda skömm, hvort heldur viljandi eða óviljandi?

„Í báðum tilfellum er um það að ræða að skammarkerfið í viðtakandanum fer í gang, honum fer að líða illa, upplifir sig sem óverðugan/ekki í lagi og langar helst til að láta sig hverfa.“

Hvaða áhrif getur skömm haft á sjálfsmynd barna?

„Skömm er vandmeðfarin. Hún er nauðsynleg sem uppeldistæki og gegnir þróunarsögulega séð því hlutverki að aðstoða okkur við að haga okkur á þann máta að „hópurinn okkar“ hafni okkur ekki. Þess vegna er skömmin stundum kölluð menningartilfinningin og án hennar væri engin menning. Þetta er hin góða hlið skammarinnar. Slæma hliðin er hins vegar skammt undan og sú hlið kemur fram ef sá sem kallar fram skömm hjálpar barni ekki að losna úr skömminni eins fljótt og auðið er. Þá upplifir barnið niðurlægingu og finnst það vera óelskað, ómögulegt og ekki þess virði að vera í kringum aðra.“

Er skömmin viðtekið stjórntæki í samskiptum og þá af hverju?

„Skömmin fær okkur til að hætta því sem við erum að gera og þess vegna er auðvelt að nota hana sem stjórntæki á börn jafnt sem fullorðna. Og þá skiptir máli hvort sá sem kallar fram skömmina er að gera það í góðum, uppbyggilegum tilgangi eða til þess að brjóta aðra manneskju niður.“

Hvernig getum við á sem áhrifaríkastan hátt hætt að skammast, þá bæði í hvort öðru og hætt að skammast okkar?

„Skömm í hæfilegum skömmtum hjálpar okkur í mannlegum samskiptum og styrkir taugakerfið okkar. Þess vegna er hún nauðsynleg. Því þurfum við að geta skammast okkar. Hins vegar má ekki fara yfir línuna sem ég nefndi hér áðan því þá fer hún að stjórna okkur, fær okkur til að fela okkur, kemur í veg fyrir að við stöndum með sjálfum okkur og veitir því öðrum vald yfir okkur sem getur haft skelfilegar afleiðingar fyrir okkur.“

 

Mér er nokkuð létt yfir því að vita að skammir og skömm geti þjónað uppbyggilegum tilgangi. Og fegin er ég að vera ekki dúkkan sem sat undir fúkyrðum dóttur minnar en ég tek lexíuna til mín um að aðgát skuli höfð í nærveru sálar. Þetta er enn einn línudansinn í uppeldinu. Erum við kannski öll að dansa hann saman?

Auglýsing

læk

Instagram