today-is-a-good-day

Börn með stórar tilfinningar og mikið skap, hvað er til ráða?

Við höfum flest upplifað ástandið þegar barn missir stjórn á sér og tilfinningarnar bera það ofurliði. Það getur verið geysilega lýjandi að eiga við börn sem fá tíð reiði- og skapofsaköst. Við leituðum til Rakelar Ránar Sigurbjörnsdóttur fjölskylduþerapista sem hefur sérhæft sig í geðheilbrigði ungra barna og forvitnuðumst um ástæður skapofsa og úrræði fyrir börn með stórar tilfinningar.

Spáir skapferli ungra barna fyrir um hvernig lundarfar þeirra verður þegar þau eldast?

Já, rannsóknir sýna það. Það kemur fljótt í ljós hvernig við bregðumst við áreiti, hvaða úthald við höfum fyrir því sem er að gerast í kringum okkur. Sumir kippa sér lítið upp við læti, rútínuleysi og rót á meðan önnur börn geta farið í algjöran mínus í sömu aðstæðum. Við höfum mismikið þol fyrir áreiti og óöryggi og eigum miserfitt með að tjá okkur um líðan okkar og vinna úr henni. Og rannsóknir sýna að skapgerð getur fylgt okkur á fullorðinsárum – til góðs eða ills. Þess vegna er svo mikilvægt að við hjálpum börnum sem eru með miklar tilfinningar sem þau ráða illa við, að ná stjórn á þeim. Við viljum að börnin geti notað tilfinningar sínar sér til framdráttar í lífinu en ekki að þær vinni gegn þeim.

Fæst þú mikið við börn með stórar tilfinningar?

Ég geri það og mér finnast þau rosalega skemmtileg! Ég vinn aðallega með börnum undir grunnskólaaldri og foreldrum þeirra og ein ástæða þess að foreldrar leita til mín er skapofsi barnanna. Það geta verið margar ástæður fyrir skapofsanum þó birtingarmyndin sé svipuð. Oftast snýst vinnan um að hjálpa barninu að tjá sig og hjálpa foreldrum að skilja barnið. Þegar börn eru skapstór þurfa foreldrar oft stuðning við að fást við þetta skap og setja mörk. Það er eðlilegt að foreldrar detti í að svara skapi barna sinna með miklu skapi á móti og/eða þeir forðast átök og setja þar af leiðandi ekki nægilega skýr mörk.

Hvað geta foreldrar gert til að hjálpa barninu sínu?

Það fyrsta sem foreldrar geta gert þegar barnið missir oft stjórn er að skoða rútínuna og hvernig hún hentar barninu. Svefninn er stórt atriði og maturinn líka. Það þarf að athuga hvort barnið sé að fá nægan svefn eða hvort það þurfi að fara fyrr að sofa á kvöldin, eða bæta inn lúrum hjá yngri börnunum. Sama með matinn, stundum hjálpar að gefa barninu nasl reglulega á milli máltíða, og auðvitað að passa að barnið fái fjölbreytt og næringarríkt fæði. Þetta þekkjum við fullorðna fólkið sennilega flest á eigin skinni. Það er eðlilegt að verða til dæmis pirruð, óþolinmóð eða döpur þegar við erum illa nærð eða ósofin. Eftir að svefn, matur og hreyfing hefur verið skoðuð þarf að athuga hvort það sé mikil streita eða ójafnvægi á heimilinu. Börn eru auðvitað tilfinningaverur og finna fyrir sínum eigin tilfinningum en þau finna líka mikið fyrir tilfinningum foreldranna og annarra á heimilinu.

Við þurfum því að passa upp á okkur til að passa upp á börnin.

Annað sem við þurfum að hafa í huga er að eftir langan dag í daggæslu eru börn oft búin á því. Það getur verið of mikið fyrir þau að fara í búðina eða í barnapössun í ræktinni eftir 8 tíma dag á leikskóla. Það er bara eðlilegt.

Svo er það áhuginn á barninu og forvitnin sem geta komið okkur langt. Ef barnið okkar á erfitt með tilfinningar þá ættum við að vera forvitin um hvað sé að trufla barnið frekar en að láta tilfinningar þess pirra okkur. Við þurfum að spyrja okkur, hvernig líður barninu, hvað gæti verið að hrjá það, hafa verið breytingar í lífi barnsins, aukið óöryggi, fær barnið nægan ótruflaðan tíma með foreldrinu? Þannig getum við hjálpað barninu að bera erfiðar tilfinningar og létt á spennu sem hvílir á þeim.

Hver er ástæðan fyrir skapofsaköstum?

Við tölum yfirleitt um skapofsaköst þegar barn missir stjórn á tilfinningunum, grætur mikið/öskrar, hættir jafnvel að geta staðið í fæturnar, útlimir fara í allar áttir og barnið virðist hvorki geta talað né hlustað. Fyrir þessu geta verið ótal ástæður. Við fæðumst ekki með úthald fyrir vonbrigðum og því eðlilegt að börn missi tökin þegar þau fá ekki það sem þeim langar í, sérstaklega þegar þau eru illa fyrir kölluð, t.d. vegna þreytu, hungurs eða álags. Þetta er bara hluti af þroskaferlinu. Sum börn fara í gegnum þetta tímabil á nokkuð auðveldan hátt á meðan önnur eiga mun erfiðara með það. Taka jafnvel mörg köst á dag, mánuðum eða árum saman. En við viljum gjarnan að þetta vaxi af þeim og þar komum við fullorðna fólkið inn í myndina. Við þurfum að hjálpa þeim. Við þurfum að skoða hvort barnið hafi upplifað eitthvað sem hefur haft þessi áhrif, svo sem að verða fyrir eða verða vitni af ofbeldi eða slysi. Erfiðleikar á milli foreldra geta líka ýtt undir ójafnvægi og ákveðnir uppeldishættir, svo sem að vera of lin eða of hörð.

Það eru margrar undirliggjandi ástæður fyrir skapofsa og þess vegna er ekki hægt að tækla hann bara á einn hátt. En að sýna barninu samkennd er alltaf gott. Það langar engu barni að líða eins og því líður í skapofsakasti. Öll börn vilja gera vel og öllum langar að líða vel. Almennt eru þau ekki að reyna að vera óþekk. Og ef okkur finnst þau vera að reyna það þá þurfum við að skoða af hverju í ósköpunum barnið hafi þörf fyrir slíkt.

Hvaða tilfinningar  verða helst yfirþyrmandi fyrir börn?

Það eru alls konar tilfinningar sem geta verið yfirþyrmandi. Börn eins og fullorðnir geta upplifað yfirþyrmandi eftirvæntingu, gleði, sorg, vonbrigði, reiði og margar aðrar tilfinningar. Það er oft talað um reiði sem viðbragðstilfinningu við alls kyns erfiðum tilfinningum eins og ótta, vonbrigðum, vanmætti, höfnun og sorg. Þegar við upplifum einhverja þessara tilfinninga á háu stigi þá kemur reiðin fram eins og varnarkerfi. Börn eiga líka mörg erfitt með að verða mjög spennt. Þau geta alveg misst stjórn á sér þegar þau bíða eftir afmælinu, jólunum eða eitthverju öðru skemmtilegu. Það er eitthvað að fara að gerast og þau hreinlega missa stjórn, fara að hoppa upp á húsgögn og hanga í gluggatjöldunum. Þessi spenna nær oft hámarki með grátri barnsins og jafnvel æpandi foreldri. Það getur verið mjög ógnvekjandi fyrir barn að missa stjórn á tilfinningunum og hegðun (og fullorðna líka…) og það er gott ef við foreldrarnir getum virkað eins og öryggisvinklar og hjálpað þeim að stilla sig af, ná sér niður á jörðina þegar þau geta það ekki sjálf.

Eru ung börn með flókið tilfinningalíf?

Já, börn upplifa mjög flóknar tilfinningar. Alveg frá fæðingu. Það er ákveðin hefð fyrir því í umræðunni að tala um ungabörn eins og þau skilji ekkert. Það er ekki einu sinni svo langt síðan talið var að nýburar væru bæði blindir og heyrnarlausir. Sem þeir eru auðvitað almennt ekki. Þau bæði sjá og heyra og þau skynja tilfinningar foreldra sinna út frá svipbrigðum og líkamstjáningu. Margir átta sig ekki á hversu flókið tilfinningakerfi þeirra er. En þau eru ótrúlega fær og þau tjá sig mikið þó þau geri það ekki með orðum eins og við.

Ef við gerum okkur grein fyrir hversu flókið tilfinningakerfi börn hafa getur það hjálpað okkur að setja okkur í þeirra spor og skilja þeirra aðstæður betur. Við ættum alls ekki að gera lítið úr getu ungra barna til að skynja og búa til merkingu úr því sem þau skynja.

En hvað virkar best á reiði? Hvernig svarar maður reiði?

Viðbrögð okkar við reiðinni geta breytt miklu. Bara það að vera ekki reið á móti getur komið okkur ótrúlega langt. Við þurfum ekki endilega að vera með barninu í þessari tilfinningu; ég þarf ekki að vera brjáluð þó einhver fimm ára sé brjálaður. Og grundvallaratriðið er að beita ekki hörku. Við foreldrar þurfum að geta hamið okkur þó við verðum reið vegna hegðunar barnsins. Ef við rífum í öxlina, eða tökum hastarlega á þeim af því að við ætlum að þagga niður í  þeim eða sýna þeim hver ræður erum við að gera lítið annað en að fá útrás fyrir eigin tilfinningar.  Það er svo flott setning í bókinni Hollráð Húgós:„ … ef skammir dygðu væru ekki til óþæg börn.“ Þetta er svo rétt. Við getum argað og gargað en það hjálpar börnunum ekkert, sérstaklega ekki við að læra að stjórna sínum tilfinningum. Rannsóknir sýna líka að þegar foreldrar beita harðræði eru börn þeirra líklegri til þess að beita jafningja sína harðræði, beita ofbeldi og endurtaka svona munstur á fullorðinsárum. Svo það er númer eitt, tvö og þrjú að beita þau ekki harðræði. Og forðast eins og maður getur að vera reiður á móti. Við þurfum að setja mörk og reyna að vera mjög skýr og ákveðin, en forðumst að fara inn í sömu tilfinningu og barnið.

Þegar við fullorðna fólkið verðum reið viljum við að á okkur sé hlustað. Það vilja börnin líka. Svo hlustun og áhugi á barninu er mikilvægur. Það er ástæða fyrir reiðinni. Stundum vita þau ástæðuna en stundum hafa þau ekki hugmynd um hvers vegna þau eru reið. Það getur verið gott að kryfja reiðina með þeim, vera til staðar og ræða við þau. Það hjálpar mikið að koma því í orð sem barnið er mögulega að upplifa: „Ég sé að þú ert alveg hoppandi af reiði af því að þú fékkst ekki Kókópuffs. Þig langar greinilega mjög mikið í svoleiðis.“

Time out-aðferðin hefur verið mikið notuð, þar sem barnið er sett í einveru ef hegðun þess eða tilfinningar eru stjórnlausar. Ég mæli ekki með því. Nema í fyrsta lagi eftir að fimm ára aldri hefur verið náð. Ef það þarf að fjarlægja barn úr aðstæðum er betra að beita time in-aðferðinni þar sem við förum með barninu inn í herbergi. Ef barnið þiggur aðstoð, t.d. að sitja í fangi þá er það frábært en ef barnið vill ekkert vita af foreldrinu er það í lagi líka. Hugmyndin er að við kennum barni tilfinningastjórn með nærveru og fyrirmynd en ekki að við refsum fyrir skort á þessari stjórn.

Það er líka gott að muna að ekkert okkar foreldranna er fullkomið. Ekki frekar en börnin. Það er óraunhæft að ætlast til að við bregðumst alltaf við af yfirvegun og jafnvægi – það getur fokið í okkur líka. Við erum mannleg. Mikilvægast er að reyna sitt besta.

Þurfa foreldrar að óttast að börn verði of frek eða viljasterk?

Kannski ekki að óttast það, en að reyna að leggja sitt af mörkum til að hjálpa barninu svo lífið verði ekki yfirfullt af árekstrum. Það getur verið erfitt fyrir barn ef það nær ekki tökum á viljanum og tilfinningunum. Heimurinn er fullur af vonbrigðum og enginn fær alltaf að ráða. Það er vont ef barnið lærir ekki að takast á við yfirþyrmandi tilfinningar. En það er með þetta eins og annað, við erum misfljót að læra. Sumir læra snemma að ganga, pissa í klósett og klæða sig í útiföt á meðan aðrir þurfa mun lengri tíma. Sumir eiga erfitt með að læra tilfinningastjórnun á meðan aðrir ná því frekar snemma. Við blómstrum öll á ólíkum tíma. Stærsta atriðið er sennilega að hafa þolinmæði fyrir barninu okkar og skoða styrkleika þess og veikleika í heild.

Sterkur vilji getur nefnilega verið mjög dýrmætur fyrir barnið til framtíðar ef það nær tökum á honum.

Hversu ung börn geta komið til þín?

Ég vinn með foreldrum á meðgöngutímanum og börnum frá fæðingu til ca. 6 ára aldurs og foreldrum þeirra. Það hægt að byrja að vinna með fjölskyldum strax frá getnaði – og raunar fyrr – því líðan móður hefur áhrif á þroska ófædda barnsins. Svo ef það er eitthvað sem fólk hefur áhyggjur af eða veldur vanlíðan á meðgöngu er hægt að vinna með það strax og það er heilmikil forvörn í því fyrir börn og fjölskyldur. Mín vinna með ungum börnum er að miklu leiti í gegnum leik, þannig að t.d. orðaforði barnsins er algjört aukaatriði. Hugmyndir um að það sé ekki hægt að vinna með líðan ómálga barna hefur hamlað því að ung börn fái stuðning og þjónustu. Þetta er bara svo innilega rangt. Þessi tími í lífi barnsins er svo dýrmætur, á þessum fyrstu árum er heilinn að mótast og búa til tengingar sem munu marka okkur alla tíð. Þegar við getum ekki notað samtalsmeðferð þá er mikið unnið út frá líkamstjáningu og leik.

Eru margir að vinna með svona ung börn?

Nei, það eru tiltölulega fáir að vinna með börn á þessum aldri. Þetta er frekar nýtt, þó rannsóknirnar séu ekki nýjar er þetta faglega starf frekar nýtt af nálinni hér á Íslandi. Það er teymi á Landsspítalanum, sem vinnur með fjölskyldum á meðgöngu og fyrsta ár barnsins, svo er það Miðstöð foreldra og barna þar sem ég vinn líka, sem sinnir foreldrum á meðgöngu og fyrsta árið – jafnvel fyrstu þrjú árin. Heilbrigðisstofnun Suðurnesja hefur einnig verið að sinna þessum aldurshóp og svo nokkrir sjálfstætt starfandi meðferðaraðilar sem ég veit um. Það gætu auðvitað verið fleiri sem ég veit ekki um. Það eru síðan fjölmargir sem vinna með börn á grunnskólaaldri.

Hvenær þarf maður að leita sér aðstoðar? Hvað er eðlilegt?

Ég held að þegar maður upplifir kvíða eða neikvæðar tilfinningar gagnvart barninu sínu sé tímabært að leita ráðgjafar. Ef heimilislífið er komið í gíslingu þá þarf að grípa í taumana. Heft hegðun og óhefluð hegðun getur verið vísbending um að barnið þurfi auka stuðning. Til dæmis ef barn er farið að draga að sér óhóflega neikvæða athygli sem ekki er hægt að skýra með t.d. svengd eða þreytu og þegar samvera með því er orðin hamlandi og kvíðvænleg fyrir foreldra. Þetta geta verið vísbendingar um að barnið og foreldrarnir þurfi aðstoð. Þegar börn hafa upplifað áföll, ofbeldi og/eða mikið óöryggi þurfa þau oft að fá aðstoð við að vinna úr upplifun sinni. Alveg eins og við fullorðna fólkið. Stundum kemur fólk út af vanda sem hefur nýlega birtst og getur tekið tiltölulega stuttan tíma að vinna með. Annar vandi er flóknari og þarfnast langrar meðferðar. Ástæður þess að fólk leitar sér aðstoðar eru mjög misjafnar og þær taka líka  misjafnan tíma í úrvinnslu.


Rakel Rán starfar meðal annars í Lygnu – fjölskyldumiðstöð í Síðumúla. Sjá nánar á heimasíðunni hennar www.fyrstuarin.is.

Auglýsing

læk

Instagram