Börnin og heimilisstörfin – viðmið og hugmyndir fyrir tvístígandi foreldra

Heimilisstörfin vinna sig ekki sjálf. Það er margsannað. Kostirnir við að venja börn snemma við það að taka þátt í heimilisstörfum eru ótvíræðir. Það er til að mynda mikilvægt að þau læri undirstöðuatriði í þrifum og eldamennsku – já og kunni að ganga frá eftir sig. Tækifærin til að æfa sig í að taka ábyrgð á verkefnum eru þeim líka dýrmæt. Þetta er endalausar æfingabúðir fyrir lífið.

Fyrir okkur foreldrana er síðan dásamlegt að verkefnin dreifist á fleiri hendur. Við erum ekki að reka hótel, heldur heimili, ellerhur?

Svo hér er hugmyndalisti fyrir ykkur sem viljið virkja börnin betur. Athugið að verkefnin er aðeins til viðmiðunar. Þroski barna er mjög misjafn, og þið eruð sérfræðingarnir í ykkar börnum. Ég er sumsé ekki að tala fyrir barnaþrælkun heldur uppeldistækifærum – og ekki síður minna álagi á foreldra.

2-3 ára

  • Ganga frá leikföngum
  • Þurrka upp það sem sullast
  • Taka af matarborðinu
  • Hjálpa til við að ganga frá innkaupum
  • Flokka rusl
  • Setja föt í óhreinatauið
  • Æfa sig að sópa / moppa

4-6 ára

  • Búa um rúmið sitt
  • Flokka þvott og ganga frá fötum
  • Leggja á borð
  • Vökva blóm
  • Þurrka af
  • Taka til snarl
  • Sópa gólf

7- 9 ára

  • Brjóta saman þvott
  • Skipta á rúmum
  • Elda einfalda rétti
  • Raða í uppþvottavél
  • Flokka þvott
  • Ryksuga
  • Halda herberginu sínu snyrtilegu
  • Vakna sjálf og koma sér á fætur
  • Taka til nestið sitt og skóladót

10 ára og eldri

  • Nota þvottvél og þurrkara
  • Þrífa og skúra og skrúbba
  • Klippa, reita og raka gras
  • Flokka, endurvinna og fara út með ruslið
  • Elda heila máltíð
  • Þvo bílinn
  • Halda herberginu sínu hreinu

Þetta getur verið slagur. Það þarf mögulega þrautseigju, samningatækni og þrjósku til að fylgja þessu eftir, og ákveðið kæruleysi gagnvart því að verkefnin verða mögulega ekki unnin nákvæmlega eins og þú kysir helst. En það verður allt þess virði þegar barnið þitt finnur til stolts og sjálfstæðis yfir því að klára sitt (sem þú þarft þá ekki að sinna sjálf/ur). Allir vinna.

Nokkur ráð á leiðinni þangað.

  • Ekki demba of mörgum verkefnum á í einu.
  • Reyndu að stíla inn á áhugasvið barnsins. Ef það hefur engan áhuga á heimilisstörfum þarftu að nota hugmyndaflugið. Þú ert með svoleiðis – þú munt finna leið. Ekki gefast upp.
  • Leyfðu barninu að stýra því hvenær það klárar verkefnið og ekki standa yfir því á meðan. Ekki vera of æst/ur í að hjálpa nema ef sérstök þörf er á slíku. Börn eru með æðislega fínan hæfileika til að finna út úr hlutunum sjálf.

Svo eru það unglingarnir. Ræðum þau seinna.

Ertu með skoðun. Deildu henni bara. Við erum líka á Facebook.
Lækaðu og þú missir ekki af neinu forvitnilegu foreldra-tengdu á Nútímanum.

Auglýsing

læk

Instagram