Mömmur vita best: hér er það sem mömmur vilja að börnin þeirra fái í jólagjöf

Ég ætla að leyfa mér að vera óþolandi. Og sorrý, elsku barnið mitt, þegar þú lærir að lesa og ferð að vafra um á netinu og finnur þessi skrif á stafrænum ruslahaugum framtíðarinnar. Ég er ekki að plotta gegn þér, ég veit bara að mömmur vita best. Svo hér er listi yfir það sem sumar mömmur gætu viljað að börnin þeirra fái í jólagjöf.

1. Samangaman

Spil eða púsl sem fjölskyldan getur notað saman. Það jafnast ekkert á við þessar magísku tíu mínútur (max) þegar fjölskyldan getur sameinast um að gera eitthvað saman í friði og ró.

2. Hver étur sokkana?

Vettlingar og sokkar. En samt aðallega vettlingar. Hvað verður um alla þessa andskotans vettlinga? Það eru bara ALREI til nægir vettlingar.

3. Samvera án foreldra

Náttfatapartý, næturgisting, pitsukvöld, ísbíltúrar, sundferðir, bústaðahelgar, keilukeppnir, út að borða í IKEA. Við elskum börnin okkar mjög mikið – en við elskum líka þegar aðrir vilja fá börnin okkar lánuð og gera skemmtilega hluti með þeim.

3. Ávísanir á fjör

Gjafakort í leikhús/tónleika/bíó/námskeið. Slíkt er ávísun á fjör og fallegar minningar. Svo er frábært þegar fólk tekur sig saman um gjafir, hugmyndir og útfærslur þeirra. Saman er skemmtilegra en sér.

4. Bækur

Það er líka svo auðvelt að pakka þeim inn! Ég er reyndar mjög hlutdræg. Ég vinn við bókaútgáfu. Það eru ekki sögur í öllum bókum, sumar eru stútfullar af myndum – úrvalið er ótrúlega magnað. Það ættu allir að geta fundið frábæra bók við sitt hæfi þarna úti. Kaltmalt: ef þú færð ekki að minnsta kosti eina bók í jólagjöf þá er veröldin að hlunnfara þig.

5. Búnaður

Svo sem sundpokar, veski, handklæði, heyrnatól, sólgleraugu … bara allt þetta aukadót sem fylgir börnum og vill týnast og/eða skemmast.

6. Eitthvað í herbergið

Körfur, púðar, lampar, mottur, myndir á veggina … það sem hvetur börnin til þess að hafa huggulegt (og snyrtilegt) í kringum sig.

Það er mögulega lítið fjör í að fá vettlinga. Ég veit. Jólin eru hátíð barnanna. Þetta er mögulega allt of praktískur þankagangur. En miðað við magnið sem eitt meðal-barn fær af innpakkaðri jólagleði þá munu fimm, sex vettlingapör ekki ríða baggamuninn. Ég segi bara svona, ef þú ert í vafa um hvað þú ættir að gefa … gefðu þá barni vettlinga.

Ertu með fleiri hugmyndir í púkkið?
Nútímaforeldrar eru líka á Facebook og við fögnum kommentum og ábendingum þar.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram