Ömmurnar eru bjargvættir nútímans því án þeirra færi nær allt á hliðina

Einhver hagfræðingurinn ætti að reikna út þjóðhagslegan ávinning þess að eiga ömmu. Já og afa, þeir eru líka mjög mikilvægir. En þessi pistill er samt aðallega um ömmur því þær eru í því að bjarga Íslendingum á hverjum einasta degi.

Ömmur eru allskonar, þær eru rólyndar, uppteknar, prjónandi, draktklæddar, jógaðar, zenaðar, stressaðar, bakandi, lærandi, skrifandi og stússandi. Þær eru konur á öllum aldri með ást að gefa börnunum okkar. Ömmur eru líka með afar mikla ábyrgð á sínum herðum. Þær eru gangverkið í samfélaginu okkar, þar sem systemið gliðnar þar treystum við á ömmur. Á konurnar.

[Hér set ég inn fyrirvara. Auðvitað eru ekki allir eins, þessi pistill er skrifaður út frá mínu sjónarhorni en hann fjallar ekki einvörðungu um ömmurnar í mínu lífi. Amma kleina og amma ís, þið eruð æði – þakkir, ást og virðing. Ég nota ömmu-hugtakið mjög vítt, hér er í raun líka verið að fjalla um hugmyndina um „ömmuna“ og ég alhæfi líka töluvert.]

Ég velti því fyrir hvernig samfélagið yrði ef við tækjum ömmurnar úr umferð? Ef enginn sinnti þeim fjölmörgu verkefnum sem þær, af ást, skyldurækni og hefð, sinna á hverjum einasta degi? Dómínóáhrifin yrðu gígantísk! Mér er nær að halda að samfélagið myndi gjörsamlega lamast fyrir hádegi.

Foreldrar sem þegar rembast við að jöggla heimilislífi, atvinnulífi, áhugamáli, félagsstarfi, líkamsrækt og kannski stöku ferðalagi þurfa mikla hjálp. Og það virðist ekki „í boði˝ að gefa neinn afslátt á lífinu. Atvinnurekendur, þið ættuð að kynna ykkur ömmur og afa-aðstæður í lífi starfsmanna ykkar. Mögulega er lykillinn að vellíðan, og þar með framleiðni, starfsfólks ykkar fólginn í stundaskrá næstu kynslóðar fyrir ofan? Þetta er grín. Ekki gera það.

Í mínum huga mynda ömmur hið ósýnilega velferðarkerfi. Hvort sem þeim líkar betur eða verr þá er stólað á þær að koma til bjargar á svo mörgum sviðum fjölskyldulífsins. Ólaunuð vinna kvenna (í umönnun af öllu tagi, uppeldi, sáluhjálp og andlegum stuðningi) verður aldrei metin til fjár en hana ætti þó ekki að líta á sem sjálfsagðan hlut.

Það er samt gert. Margar eldri konur fá ekki fullan ellilífeyri vegna þess að þær hafa ekki „unnið“ nógu mikið. Þær voru heimavinnandi eða í hlutastarfi til þess að sinna fjölskyldunni og sú ákvörðun bitnar á þeim í dag. Hvernig tilfinning ætli það sé? Ég efast um að þær sjái eftir tímanum með fjölskyldunni, en þetta er samt fjári fúlt. Í kynjabókhaldinu er ljóst að konur hafa haft minni tíma til þess að safna til efri áranna, það er samfélagslega „ætlast“ til þess að þær sinni ólaunaðri vinnu og þær lifa almennt lengur en karlarnir.

Okkur er ljúft og skylt að styðja, vernda og annast okkar nánustu. Sem betur fer er sú ábyrgð farin að dreifast betur. Er það ekki?

Við göntumst með hversu brilljant það er að vera amma eða afi. Að fá að umgangast og elska þessi hjartansgull og yndi – spilla þeim smá og skila þeim svo aftur. Það er rósrautt ský yfir rullunni og ég efast ekki um það eitt augnablik að það er svo gefandi og dásamlegt að vera amma og afi. En það er ábyggilega líka alveg drulluerfitt. En enginn talar um það. Enginn talar um hvað gerist þegar gildismat kynslóðanna er ólíkt. Þegar for-foreldrar (ömmur og afar) skilja ekki forgangsröðun sinna barna, til dæmis stífbókaðar stundaskrár barnabarnanna. Afar og ömmur eiga ást, en engan beinan rétt. Þau eru bara með tillögu- en ekki atkvæðisrétt.

Ömmur eru ekki sjálfsagðir hlutir. Það vita allir sem hafa misst slíka. Mér finnst að atvinnulífið allt ætti að viðurkenna betur mikilvægt vinnuframlag og hlutverk „ömmunnar“ í íslensku samfélagi og heiðra þær konur sem á bak við tjöldin halda þessu samfélagi gangandi. Við kæmumst ekkert án þeirra.

 

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.
Svo er dásamlegt að deila.

Auglýsing

læk

Instagram