Unglingar þurfa að læra að spara, skipta, prútta, spyrja og bíða sjálfir eftir þjónustufulltrúum

Í framhaldi af síðasta pistli um börn og fjármál.

Unglingar geta verið dýrt spaug. Það spyr mann enginn hvort maður ætli að eignast ungling. Það bara gerist. Og þá stendur mögulega dramatískt ungmenni á eldhúsgólfinu þínu, með allar sínar þarfir og vilja og er líklega í bullandi sjálfsmyndarkrísu allan sólarhringinn. Þess vegna þurfa unglingar allskonar og marga foreldra fer að verkja í veskin, það er því til mikils að vinna að hjálpa þeim að verða eins fjárhagslega sjálfstæð og kostur er.

Svo hér eru leiðbeiningar fyrir foreldra og uppalendur sem vilja liðsinna unga fólkinu sínu í fjármálum.

Peningamál fyrir 14-18 ára:

  1. Hvað kostar þú eiginlega? Það er virkilega gagnleg verðvitundar-æfing fyrir bæði börn og foreldra að skoða hvað einn einstaklingur kostar, bara standandi þarna á eldhúsgólfinu. Fötin, taskan, síminn, klippingin, gleraugun, skórnir … þetta tínist til. Þú vilt líka að barnið þitt beri virðingu fyrir hlutunum sínum – þá týnast þeir síður eða skemmast.
  2. Fjárhagsleg markmið. Hlutirnir sem barnið vill eða þarfnast verða sífellt dýrari. Ræddu við unglinginn um hvaða veraldlega dót er mikilvægast fyrir það og hvernig er raunhæft að fjármagna kaupin.
  3. Hvaðan koma vasapeningar? Fjárhagslegt sjálfstæði er mjög mikilvægt. Ræddu við barnið þitt um besta fyrirkomulagið. Er heppilegt að það stýri sinni neyslu að einhverju leyti sjálft? Vill það keppa að því að hækka vasapeningana sína með því að sinna einhverjum verkefnum betur eða oftar? Vasapeningar eru ekki fasti, þeir geta hækkað, lækkað eða horfið. Þarna er kjörin leið til hvatningar og umbunar, ekki bara fyrir foreldra heldur kannski fleiri í fjölskyldunni sem vilja leggjast á árarnar.
  4. Fyrsti launaseðillinn þinn er lægri en þú heldur. Fræddu barnið þitt um skatta og fleira sem kemur til frádráttar launum og af hverju. Kenndu því að lesa launaseðla.
  5. Smálán og yfirdrættir eru Satan. Kenndu ungmenninu þínu að sjá í gegnum gylliboð um skammtímalán. Farðu í gegnum prósentureikninginn með þeim og sýndu þeim hvernig skuldir margfaldast. Svo er gaman að horfa á eina mafíumynd saman.

Og nú kemur mikilvæg orðsending til foreldranna. Pössum okkur að vera ekki þroskaþjófar og „redda öllu“ fyrir börnin okkar. Þau verða að fá að spreyta sig sjálf á því að velja, semja, panta, kanna, prútta, skipta, fresta, hringja og spyrja, senda fyrirspurnir, bera hluti saman og bíða eftir þjónustufulltrúum.

Ef þau venjast því að foreldrar séu eins og stimamjúkir þjónar á fimm stjörnu hóteli (með eða án væls) þá verður bara ennþá erfiðara fyrir þau að standa á eigin fót, þegar þau eru 42 ára og flytja loksins að heiman.

Fyrir 18 ára og eldri:

  1. Hvað þýðir það fjárhagslega að verða sjálfráða? Ræddu við ungmennið um ábyrgðina sem fylgir frelsinu – og hver þarf/á/má beila hvern út úr hverju og hvernig.
  2. Kreditkort hafa bæði kosti og galla. Farðu vel yfir gallana með unga fólkinu, þau munu finna kostina alveg sjálf.
  3. Gæði og magn fara sjaldnast saman. Þetta er gott að læra snemma. Sparar fullt þegar allt kemur til alls.
  4. Áhrif framboðs og eftirspurnar á kostnað. Þetta er mikilvægt að skoða vel, það má til dæmis ræða í samhengi við útsölur.
  5. Hvernig vinna er á bak við ólík störf og verkefni? Það er mismunandi fyrirhöfn á bak við hverja krónu, þetta má til dæmis skoða með því að ræða verkefni mismunandi starfsstétta, menntun, öryggi og vinnutíma. Hvettu ungmennið þitt til þess að spyrja alla út í störfin þeirra, það er mikilvægt að þau viti líka að fyrir marga snýst starfið alls ekki bara um launin.
  6. Fjárhagsáætlanir eru hjálplegar. Hjálpaðu ungmenninu að gera fjárhagsáætlun út frá mismunandi forsendum, þetta er til dæmis auðvelt að gera með reiknivélum á vef velferðaráðuneytisins.
  7. Tryggðu með öllum mögulegum ráðum að barnið þitt, sem ekki er lengur barn, kunni að spara og líti á það sem sjálfsagðan hlut.

Þessi samantekt er fjarri því að vera tæmandi. Líklega er best að hver hugsi líka með sér: „Hvað vildi ég hafa vitað miklu fyrr um peninga ….?“ og miðli því áfram til afkomenda sinna. Við getum ekki treyst á það að aðrir (skólakerfið, jafningjarnir, internetið) sjái um þessa fræðslu, setjum okkur í gírinn og hefjum símenntunina.

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu. 

Auglýsing

læk

Instagram