Vetrarhlé er réttara orð, það eru ekkert allir í fríi

Á pappírunum segjumst við láta fjölskylduna ganga fyrir en í praxís leyfi ég mér að fullyrða að það er sjaldnast raunin. Fjölskyldufólk er almennt í endalausum málamiðlunum; að jöggla skyldum sínum og ábyrgð heima og í vinnunni. Svo kemur að hinu margumtalaða vetrarfríi. Við erum ekki ennþá búin að ná þessu. Galdurinn við að samræma stundaskrár og skyldur fólks á vinnumarkaði er ekki fundinn.

Það eru liðin þrettán ár síðan vetrarfríunum var komið á. Þá fannst foreldrum og atvinnulífinu þetta þarft og gott mál. Að kærkomið væri að hafa smá hlé í skólastarfi í grunnskólum og ekki síður að samræma ætti frídaga milli skóla. Og á ári hverju síðan förum við í gírinn og skiptumst á skoðunum gildi þessara frídaga, amann af þeim, álagið eða yndið. Því sitt sýnist hverjum ennþá. Ekki síst námsmönnum, verktökum og vaktavinnufólki sem einna helst lendir í vanda við að „redda“ þessum dögum. Réttara væri að kalla þetta vetrarhlé. Það eru ekkert allir í fríi.

Í óformlegri skoðanakönnun meðal íslenskra mæðra kom í ljós að meirihluti var glaður með vetrarfríin. Fjölmargar kölluðu þó eftir betra skipulagi, t.d. milli skólastiga, og innan hverfa og bæjarfélaga. Á mörgum heimilum krefst þetta frí mikilla tilfæringa og púsls og það bitnar klárlega á gæðum samverunnar.

Svo er það spurningin um þörfina. Núorðið eru margir foreldrar miklu slakari gagnvart því kippa krökkunum sínum úr skóla, jafnvel í marga daga, vegna þess að fjölskyldan er sjálf að fara í frí á skólatíma. Krakkar í keppnisíþróttum eru líka oft fjarverandi frá skóla. Þetta var fáheyrt áður en er nú orðið frekar algengt, hvort sem skólafólki líkar það betur eða verr. Þó skólaskylda sé í landinu eru börnin á forræði foreldra sinna.

Mér finnst viðhorf samfélagsins til náms barnanna okkar kristallast í þessu. Eins og víðar í umræðunni og atvinnulífinu hugsum við flest: „Þetta er ekkert mál. Nokkrir dagar í fjarvist. Þetta reddast einhvern veginn.“ En gefum við afslátt á gæðunum?

Kannski er frábært að vinnuveitendur sjái í gegnum fingur sér við starfsmann sem tekur með sér 7 ára stúlku í vinnuna á fimmtudaginn og leyfir henni að leika sér í tölvunni hálfan dag. Starfsmaðurinn er allavega að vinna, eitthvað.

Kannski er frábært að tíu fótboltastrákar missi úr tvo skóladaga því þeir eru að keppa á móti, það er líka lærdómsríkt. Og þeir standa vonandi allir undir þeirri ábyrgð að læra námsefnið sem þeir misstu af upp á eigin spýtur.

Kannski er málið að það útskrifast allir úr grunnskóla hvort eð er? Skólaárið er langt, er ekki nægur tími til að jafna þetta út og vinna þetta upp? Alveg eins og í atvinnulífinu þar sem við vinnum bara lengur, tökum verkefnin með heim eða Skype-fundum hiklaust í fjölskyldufríinu okkar. Að því leiti er möguleg „skorpu-hugsun“ í námi undirbúningur fyrir atvinnulífið og því að láta þetta reddast. Og ekki megum við missa það viðhorf. Þá fyrst færi allt á hliðina.

Með kærri ósk um stresslaus og gleðileg vetrarfrí!

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook
Lækaðu ef þér líkar síðan og þá missir þú ekki af neinu. 

Auglýsing

læk

Instagram