Auglýsing

Páll Óskar

Það er tæpast á nokkurn hallað þegar sagt er að Páll Óskar Hjálmtýsson sé einhver allra skærasta poppstjarna Íslands um þessar mundir – og hafi verið um alllanga hríð. Lög hans svífa jafnharðan og þau koma út upp vinsældalista og hann spilar trekk í trekk fyrir fullum húsum, torgum, skrúðgörðum, bæjum, borgum, fjörðum, dölum og hvaðeina. Fyrir skemmstu gaf Páll Óskar út lagið Líttu upp í ljós, og hefur þann háttinn á að gefa það frítt til niðurhals. Í vor sem leið fór hann líkt að með lagið Ást sem endist sem notið hefur mikilla vinsælda. Páll er þekktur fyrir dugnað og ekki hvað síst í byrjun ágúst sem má segja að sé nokkurs konar hápunktur starfsárs hans, með verslunarmannahelgi og Hinsegindaga í beit með tilheyrandi önnum. Ske setti sig í samband við Palla og þótt hann væri á svo að segja stöðugum þönum um landið þvert og endilangt og með ónýtan síma í ofanálag gaf hann sér tíma til að ræða við okkur um annirnar, internetið, Hinsegindaga og fleira.

Þú virðist hafa aldeilis nóg að gera, er þetta alltaf svona?

Þetta er búið að vera svona kreisí í tíu ár. Ég tek fyrstu tvær vikurnar í ágúst með trukki, þá eru versló og Hinsegindagar. Þetta er mesti álagstíminn hjá mér. Um Verslunarmannahelgina er ég að spila nokkurn veginn samfleytt í fjóra sólarhringa, frá fimmtudagskvöldi til sunnudags. Svo fer ég í að undirbúa trukkinn fyrir gleðigönguna og vikan fram að göngu fer öll í það. Nú límir maður sólarhringana einhvern veginn saman. Ég næ þessu ef ég bara fæ átta tíma svefn á nóttu og gott að borða. Eftir tíu ár af þessu er eins og líkaminn viti hvað er að fara í gang og setji sig í stellingar, svipað og með langhlaupara eða eitthvað slíkt. Og versló er alls ekki bara dansiböll á kvöldin, ég er líka með barnaskemmtanir yfir daginn og svo eru oft kvöldvökur á torgum eða í brekkum og viðlíka.

Þú kemur oftar en ekki fram einn ásamt dönsurum en varla stendurðu einn í þessu brjálæði?

Nei, alls ekki! Ég er með teymi af frábæru fólki. Með mér eru yfirleitt ljósamaður, hljóðmaður, tveir dansarar og svo þarf ég að hafa manneskju í miðasölu ef svo ber undir. Þetta er maskína og gengur upp af því að öll tannhjól vita nákvæmlega hvert þeirra hlutverk er. Oft þarf að bregðast hratt við aðstæðum og húkkaraballið á fimmtudag í Eyjum er mjög eftirminnilegt. Í gamla daga var það haldið innandyra og þá voru oft kannski tvöhundruð manns inni á balli en þúsund manns fyrir utan á trúnó og ég þekki það vel. Þess vegna spurði ég mig af hverju við færum ekki bara út með græjur og ljós og spiluðum þar fyrir fólkið og í fyrra var slegið aðsóknarmet. Svo núna á miðvikudag var allt að verða klárt en þá kom þessi hræðilega veðurspá, rok og rigning og fólki yrði ekki stætt. Þá tókum við þá skyndiákvörðun að færa ballið inn í höllina í Vestmannaeyjum og gerðum það, roguðumst með allt kerfið inn. Klukkan hálf ellefu stóð ég svo á sviðinu inni og það átti að opna klukkan ellefu en veðurspáin bara rættist ekki baun. Það var alveg bongóblíða, himininn appelsínugulur. Ég hugsaði þá með mér að ballið yrði flopp, enginn með réttu ráði kæmi inn í hús í þessu veðri. Klukkan ellefu ruddust svo fyrstu gestirnir inn, beint af Herjólfi. Ég held að þetta hafi verið krakkar úr Reykjavík. Kortér yfir ellefu var dansgólfið fullt og á miðnætti var uppselt! Þetta blessaðist allt. Svo sló ég líka eigið aðgangsmet á Akureyri, síðan 2007 og hélt yndislegt gigg í Eyjum á sunnudagsnótt. Það gekk allt upp. En ég var líka alveg á síðustu bensíndropunum á sunnudagskvöldið. Ég gaf allt sem ég átti.

En þér gefst ekki langur tími til hvíldar, nú standa Hinsegindagar fyrir dyrum.

Nei, eftir Þjóðhátíð fór ég heim að jafna mig og svo er ég byrjaður að smíða bleikt víkingaskip fyrir GayPride. Eða öllu heldur fyrir Hinsegindaga. Hinsegin-orðið er svo gott regnhlífarhugtak fyrir allt fólk sem ekki er straight. Bi, trans, pan og fleira sem ekki fellur undir gay, passar fullkomlega undir hugtakinu hinsegin. Hugmyndin að víkingaskipinu, sem ég ætla að láta fljóta eftir göngunni, fæddist á þessum tíma fyrir ári. Þá fór ég á gríðarlega áhugaverðan fyrirlestur hjá Særúnu Lísu Birgisdóttur þjóðfræðingi. Hún varði einhverjum fimm eða sex árum í að lesa íslensk handrit, alveg frá landnámi, með hinsegin-gleraugum. Og niðurstaðan úr rannsóknum hennar er sú að þetta fólk var þagað í hel. Í handritunum finnst lítið annað en uppnefni og fúkyrði, einhverjar stórskrýtnar lýsingar á skegglausum körlum og skeggjuðum konum. En auðvitað var þetta fólk til og því voru fundin hlutverk, það voru galdrakarlar, álfar og huldufólk. Við erum ósýnilega fólkið, huldufólkið. Og nú er ég einfaldlega að fara að smíða bleikt víkingaskip til að gefa þessu fólki pláss, öllum víkingadrottningunum sem voru þagaðar í hel. Segl skipsins er svo regnbogafáninn. Við skoðuðum myndir af ótal víkingaskipum og þau áttu það sameiginlegt að seglin voru gerð úr sex renningum. Það hæfði vel fyrir okkur, hver renningur er einn litur fánans. Á þessu skipi munu víkingadrottningarnar sigla um mannhafið, alveg brjálaðar yfir því að hafa verið þagaðar í hel.

Þið eruð semsagt að veita þeim uppreisn æru sem engann stað hafa átt í sögunni.

Hér var ekkert skrifað um hinseginfólk fyrr en í síðari heimsstyrjöld. Þá komu hérna Bretar og Kanar í glæsilegum einkennisbúningum og heilla alla upp úr skónum. Að mörgu leyti vöknuðu íslenskir hommar þá til lífsins, það voru síður en svo bara stelpurnar. Skipið okkar er óður til þess fólks sem var ósýnilegt, til fortíðarinnar. Þarna verða landnámsdrottningar, ein fjallkona, ungfrú Ísland.is í fánalitum, ein Brunhilde, írsk ambátt og fjórar víkingadrottningar. Þær verða allar í bleiku frá toppi til táar. Þetta verða örugglega píkulegustu víkingar sem þú hefur nokkurn tímann séð!

Þetta verður sjón að sjá og lesendur geta látið sig hlakka til. En mig langar líka aðeins að spyrja þig út í tónlistina þína. Nú varstu að senda frá þér nýtt lag á föstudaginn var, Líttu upp í ljós, og það einsog síðustu smáskífu, Ást sem endist, gefurðu út frítt á netinu. Geturðu sagt mér aðeins frá því hver hugmyndin er að baki því?

Já. Ég er svo heppinn að hafa fengið að vinna við tónlist og gefa út plötur frá árinu 1993 og fékk þannig að fylgjast með því hvernig plötusala á Íslandi þróaðist frá fasta forminu og yfir á netið, sem er ofboðslega áhugavert. Nú er ég að vinna að plötu og er með mörg demó, góð popplög sem hljóma flott og ákvað að prufa að fara nýja leið. Í stað þess að byrja á því að gefa út plötu á föstu formi og senda svo frá mér smáskífur byrja ég á því að gefa út smáskífurnar og ætla að gera það í um það bil ár, fram í júní 2016. Þetta byrjaði í apríl þegar ég frumflutti Ást sem endist í Ísland Got Talent. Fimm mínútum síðar var lagið komið á netið, á wav. og mp3 á síðuna mína palloskar.is, á Youtube, Spotify og víðar. Hjá mér er facebook sterkasti dreifingarmiðillinn, þar komu fram viðbrögð strax fyrsta sólarhringinn. Þarna ertu bara með smekkfulla dreifingu, víðtækari en á föstu formi. Viðbrögðin við nýja laginu hafa verið ótrúleg.

Netið er ekki að ganga af tónlistinni dauðri?

Ég er viss um að internetið er meiri blessun en bölvun hvað tónlist varðar. Ég held að mannkynið allt hafi aldrei hlustað jafnmikið á tónlist og það gerir í dag, mikið til út af netinu. Þú ert með tónlistarmenn sem hefðu kannski aldrei annars komist upp á yfirborðið. Á sínum tíma stýrðu plötufyrirtækin því bara hvað var spilað í útvarpinu. Þau gera það kannski líka enn en inni á netinu hefur fæðst nýr heimur, þar sem þú leitar sjálfur uppi tónlist og og útbreiðslan gerist mikið til þannig að einn vinur segir öðrum frá og svo framvegis. Þar sannast bara hið fornkveðna að ef efnið er gott mun það heyrast, ef það er kjöt á beinunum. Gott stöff er gott stöff. En í mínu tilviki er þetta náttúrulega tilraun sem gengur ekki endalaust. Í júní á næsta ári geri ég ráð fyrir að hafa sent frá mér fjórar til fimm smáskífur, sem vonandi hafa allar orðið hittarar, og þá kemur að því að ég spyr kúnnann: Ég er búinn að senda frá mér fimm lög og það eru tíu lög eftir, viltu plötu? Þá bendi ég honum á Karolinafund eða viðlíka síðu. Þar getur hann svo valið hvaða form hann vill, hvort hann vill geisladisk, vínylplötu, minnislykil eða kassettu. En þar verður alltaf með þrjátíublaðsíðna bæklingur með öllu. Ég skal kyssa hvert eintak, sleikja hvert frímerki og dreifa plötunum sjálfur, í samstarfi við Íslandspóst! Á öllum mínum ferli hef ég varla grætt krónu á neinni plötu. Maður hefur verið ánægður með að koma út á núlli. Allar mínar tekjur frá ’93 hafa komið úr ballspilamennsku. Þetta er veruleiki þeirra íslensku tónlistarmanna sem ekki stefna út. Núna er restin af heiminum að vakna upp við íslenska drauminn – eða martröðina! DJ Páll Óskar hefur greitt húsaleiguna og símreikningana fyrir mig. Á sama tíma og fólk er hætt að kaupa plötur á föstu formi þá held ég að við eyðum meiri pening í tónlist núna en áður fyrr. Íslendingar eru enn duglegri en áður fyrr að borga sig inn á tónleika en áður. Íslendingar lærðu eiginlega ekki að borga sig inn á tónleika fyrr en Nasa opnaði, eða opnaði á ný eftir þrjátíu ára hlé, árið 2001. Þar var kominn almennilegur tónleikastaður í miðborginni. Þá lærði kynslóð að mæta á tónleika. Fólk stóð kyrrt inni á Nasa og hlustaði á Mugison eða Anthony & The Johnsons. Á sama tíma er Iceland Airwaves að fæðast og bara alveg ný sena. Og við erum mjög langt komin. Mér finnst yndislegt hversu vel er haldið utan um nýtt hæfileikafólk, hugsað um það og það aðstoðað á stökkpall, loftbrú, að stærri markaði.

Það tek ég undir með Páli Óskari Hjálmtýssyni og þakka honum hjartanlega fyrir spjallið.

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing