Sló í gegn í COLORS og gefur nú út myndband sem var tekið á Íslandi—Rimon, J Rick: „Close“

Fyrr á þessu ári var söngkonan Rimon—sem er búsett í Amsterdam í Hollandi—gestur vefseríunnar A Colors Show þar sem hún flutti lagið Dust (sjá neðst). Hæfileikar Rimon vöktu verðskuldaða athygli og skiluðu söngkonunni glás af nýjum aðdáendum (ef eitthvað er að marka athugasemdakerfi Youtube); Dust er eitt vinsælasta myndbandið á fyrrnefndri Youtube-rás.

Heimsóknina í Colors fylgdi Rimon eftir með útgáfu myndbands við lagið Focu$ (lagið kom út árið 2018) en síðan þá hefur lítið farið fyrir söngkonunni, þ.e.a.s. þangað til í vikunni; í gær (15. ágúst) gaf Rimon út myndband við lagið Close (sjá hér að ofan) í samstarfi við breska taktsmiðinn J Rick. Myndbandinu leikstýrði Armin Druzanovic og var það—eins og sjá má—tekið á Íslandi.

Lagið Close verður að finna á mixteipinu No Retreat, No Surrender, sem J Rick hyggst gefa út í september.

Eins og fram kom í viðtali við vefsíðuna The Fader, ákvað Rick að skjóta myndbandið á Íslandi vegna þess að landslagið var viðeigandi:

„Myndbandið við lagið ''Gone'' var skotið í Egyptalandi, sem er goðsagnakenndur staður … mér fannst ''Gone'' virka svo ,heitt.' Lagið ''Close'' er, hins vegar, mun kaldara. Ísland býr yfir mjög fjölbreyttu landslagi. Sólin sest til dæmis ekki á sumrin. Það er auðvelt að festast í borgarlífinu í Lundúnum en mig langar einnig að veita fólki innsýn í önnur lönd.“

– J Rick

Nánar: https://www.thefader.com/2019/08/14/j-rick-rimon-close-video.

Auglýsing

læk

Instagram