Íslenskufræðingur segir nýja slagorð Kristals hljóma rangt og að allar breytingar á kynjamáli séu vafasamar

„Það var lesið gríðarlega mikið fyrir mig sem barn og ef það er eitthvað sem byggir upp máltilfinningu, sem náttúrulega fæst ekki keypt fyrir peninga því þú þarft að öðlast hana einhvern veginn, þá er það að lesa fyrir ung börn,“ segir blaðamaðurinn og Garðbæingurinn Atli Steinn Guðmundsson á Morgunblaðinu en hann er nýjasti gestur Spjallsins með Frosta Logasyni á hlaðvarpsveitunni Brotkast.

Atli Steinn hefur vakið mikla athygli fyrir margskonar greinar og viðtöl þar sem hann skrifar einkar lipran texta með glæsilegum stílbrögðum. Atli er enda lærður íslenskufræðingur og starfaði á árum áður sem lúnkinn prófarkalesari. Hann er ósammála þeim breytingum sem verið er að gera á íslenskri tungu um þessar mundir þar sem verið er að troða inn svokölluðu kynjamáli í tungumálið. En hver ætli afleiðingin hafi verið hjá Atla Steini – afleiðingin af því að það var lesið gríðarlega mikið fyrir hann sem barn?

„Afleiðingin var sú að ég byrjaði mjög snemma að lesa bækur og var ægilegur bókaormur frá mjög ungum aldri og það skapar manni mjög sterka máltilfinningu. Svo slapp ég út úr 3. bekk í MR úr hryllilegustu stærðfræði sem ég hef nokkurn tímann lært og fór beint á máladeild. Þar fór maður í latínu í 4. bekk og latína er rosalega góður grunnur málfræðilega undir liggur við öll tungumál. Gríðarlega rökleg og lógísk og er ákaflega mikill grunnur undir öll latnesk tungumál – spænsku og ítölsku og fleira – það er gríðarlega gott fyrir fólk sem er í tungumálanámi að vera með grunn í latínu,“ segir Atli Steinn meðal annars í viðtalinu.

Það sést hver….

Frosti bendir þá á að margir telja íslenskuna undir högg að sækja. Þar nefnir Frosti dæmi á borð við vinsælar auglýsingar fyrir sódavatn – „Hver drekka Kristal“ í stað „Hverjir drekka Kristal“ – breytingar sem Atli Steinn er ekki sammála.

„Ómarkaða kynið svokallaða er karlkynið. Þegar talað er um ótilgreindan hóp af fólki, það er gamla reglan, þá er það haft í karlkyni óháð því hver kynjaskiptingin er í hópnum.“

Þá bendir Frosti á setninguna „það eru allir sammála því“ og segir að sé hún borin upp með sama hætti og auglýsingunni með Kristal hafi verið breytt þá myndi hún hljóma „það eru öll sammála því“.

„Það hljómar rangt,“ segir Frosti og undir það tekur Atli Steinn og segir allar svona breytingar mjög vafasamar að hans mati.

„Eins og til dæmis að setja þessa nýju reglugerð um íslenska stafsetningu sem kom 2016 eða 2017 þegar þessi frá 1974 var barns síns tíma og hafði sína galla en það var orðið samkomulag um hana. Prófarkalesarar og fjölmiðlar voru með hana að mestu leiti á hreinu og hún virkaði alveg. En að breyta málfræðireglum finnst mér eins og að breyta eðlis- eða náttúrulögmálum.“

Vel mótað tungumál

Atli Steinn segir að Íslendingar hafi hingað til haldið úti stífri stefnu þegar það kemur að stafsetningarkennslu.

„Ef við förum alla leið aftur í fyrstu málfræðiritgerðina þar sem að höfundur hennar gerði tilraun til að setja Íslendingum stafróf og lýsti hljóði hvers einasta stafs. Íslendingar hafa haft þetta mjög mótað og að mínu mati gengið mjög vel.“

Atli Steinn fer yfir þetta mál og líka skemmtilegt lífshlaup sitt fram til þessa en hann fagnaði um helgina þeim áfanga að verða fimmtíu ára gamall og kom sérstaklega til Íslands til að halda mikla veislu að því tilefni. Ef þú vilt horfa á og heyra viðtalið í heild sinni þá getur þú gert það með því að skunda inn á vefsíðu hlaðvarpsveitunnar Brotkast.

Auglýsing

læk

Instagram