Ásdís Rán vill alvöru karlmann með hærri laun og meiri völd

Fyrirsætan umdeilda Ásdís Rán prýðir forsíðu helgarblaðs DV þar sem hún ræðir málin eftir árs fjarveru úr sviðsljósinu.

Þyrluflugmaðurinn og þúsundþjalasmiðurinn skafar ekki ofan af skoðunum sínum frekar en fyrri daginn og ræðir meðal annars femínista og „alvöru karlmennsku“ í opinskáu viðtalinu. Ásdís Rán er vön að vera á milli tannanna á fólki en það virðist ekki stöðva hana í að segja sína meiningu. Hörðustu gagnrýnendur Ásdísar í gegnum tíðina hafa eflaust verið femínistar sem saka Ásdísi Rán gjarnan um að viðhalda úreltum staðalímyndum og margir hafa jafnvel uppnefnt hana karlrembu.

Ásdís Rán virðist hinsvegar ekki vera sammála skoðunum femínista um að vissar staðalímyndir kynjanna séu úreltar og segir þetta vera smekkstatriði. Hún segist vera gamaldags og vill meina að kvenréttindabaráttan, sem hún segist þó styðja, fari gjarnan úr böndunum hér á landi. Hún segist ekki „fíla það“ eins og hún orðar það sjálf og telur að margar konur, og karlar, séu henni sammála.

Sjá einnig: Ásdís Rán gagnrýnir Free the Nipple og kvenréttindastefnu: „Eins og ekkert sé eðlilegra en að ganga um bæinn á brjóstunum”

„Ég er bara þessi gamaldags týpa sem finnst það sexí þegar að karlmenn kunna að gera vel við konur, hafa hærri laun en ég, meira vald, sjá fyrir heimilinu og þess háttar. Mér finnst ekkert sexí eða virðingarvert við það að bjóða á deit og skipta reikningnum, láta konur borga eða setja karlmenn í þessi hefðbundnu kvenhlutverk. Mér finnst íslenskir karlmenn oft vera orðnir of mótaðir af jafnréttisbaráttunni og þar af leiðandi búnir að týna herramennskunni og orðnir alltof miklar kerlingar. Það er bara ekkert sexí. Við konur erum orðnar svo mikið æðri en þeir í svo mörgu að stundum finnst mér eins og þeir séu að verða að engu smám saman og engin þörf fyrir þá lengur því „við björgum okkur sjálfar í öllu núorðið“,“ segir Ásdís í helgarblaði DV.

Ásdís Rán sagði nýverið skilið við kærastann sinn, Jóhann Wium og þó hún hræðist það ekki að vera einhleyp þá hentar það henni illa að eigin sögn. Hún segist þá heldur ekki vera á stefnumótamiðlinum Tinder og kjósi frekar að kynnast karlmönnum á „gamla mátann“.

„En ég kynntist nú manninum mínum fyrrverandi bara í Kringlunni og síðasta maka þegar ég var úti að hjóla þannig að ég verð bara að treysta á að guðirnir sendi hann til mín, kannski bara þegar ég fer að kaupa í matinn,“ segir fyrirsætan í viðtalinu. Þá segist hún helst heillast af þessari staðalímynd karlmennskunnar, herramannskapar og valdi sem karlmenn hafa. Þá þykir henni ekki skemma fyrir að þeir séu ævintýragjarnir, klæði sig vel og séu orðnir grásprengdir silfurrefir með góð laun.

Þá er bara stóra spurningin hvort hinn fullkomni karlmaður leynist þarna úti handa dömunni, en hún segist leggja það á guð og gæfuna hvort hún hitti einhverntímann hinn eina rétta.

Viðtalið má lesa í heild sinni í helgarútgáfu DV.

Auglýsing

læk

Instagram