Bakvið tjöldin á Bessastöðum þegar Guðni bauð Ricky Gervais í mat

Samræðurnar þegar Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, bauð breska rithöfundinum Ricky Gervais í hádegismat á Bessastöðum voru fyndnar, einlægar og áhugaverðar. Þetta kemur fram í pistli eftir Rut Guðnadóttur, sálfræðinema og dóttir Guðna, á Kjarnanum.

Sjá einnig: Fyrstu viðbrögð dóttur Guðna við forsetakjöri pabba síns voru stórkostleg

Rut segist í pistlinum hafa froðufellt af tilhlökkun þegar faðir hennar bauð henni „í óformlegan brunch með herra Gervais og frú“. Hún segist þó hafa misskilið hvað felst í hugtakinu „óformlegt“og mætti því á Bessastaði í íþróttabuxum, flíspeysu og ómáluð. „Svo komst ég að því að „óformlegt“ þýddi samkvæmt föður mínum skyrta mínus bindi,“ skrifar hún.

Að auki var hádegisverðurinn ekki haldinn í eldhúsinu heima hjá þeim heldur í borðstofunni á Bessastöðum sjálfum, þar sem þjónað er til borðs, þrír gafflar eru notaðir og fullt af öðru fyndnu fólki hafði verið boðið, meðal annars Ara Eldjárn og Sögu Garðars. Og ég leit út fyrir að hafa gefið skít í allt saman.

Rut segist hafa bent föður sínum á þetta með áherslu á að hún hafi ekki einu sinni verið búin að setja hyljara yfir bólurnar sínar. Guðni yppti þá öxlum og sagði: „Skiptir það máli?“

Það ætti ekki að koma á óvart miðað við gestalistann að Rut segist hafa hlegið sig máttlausa í hádegisverðinum. „Sjaldan hafa verið haldnir fundir á Bessastöðum með skemmtilegra fólki,“ skrifar hún.

„Forsetinn gerði grín að Ricky Gervais, Ricky Gervais gerði grín að forsetanum og ég grét úr hlátri. Ég tók fullan þátt í gríninu sem leiddi til þess að pabbi minn sendi mér af til föðurlegt augnaráð til áminningar um kurteisi. Ég held nefnilega að Ricky Gervais megi grípa fram í fyrir mér … en ég ætti örugglega ekki að grípa fram í fyrir honum.“

Rut skrifar að þegar grínistar tali um grín verði hugmyndir til. „Sérstaklega þegar við fórum út í þá sálma hvort mætti gera grín að hverju sem er. Og má hver sem er gera grín að hverju sem er?“

Auglýsing

læk

Instagram