Biskup fékk milljón fyrir að skrifa tvær blaðsíður í Svíþjóð, starfsfólk Biskupsstofu hélt að hún væri í fríi

Agnes M. Sigurðardóttir, biskup þjóðkirkjunnar, fékk tæpa milljón króna í dagpeninga þegar hún dvaldi í Svíþjóð í þrjár vikur á síðasta ári við skrif tveggja blaðsíðna hirðisbréfs.

Þetta vakti athygli Ellisifjar Tinnu Víðisdóttur, fyrrverandi framkvæmdastjóra kirkjuráðs, þegar hún fór yfir bókhald þjóðkirkjunnar. Henni kom á óvart að ferðin hafi verið skilgreind sem vinnuferð þar sem hún hafði talið að Agnes hefði farið í frí.

Þetta kemur fram í viðtali Stundarinnar við Ellisif Tinnu. Hún var látin hætta sem framkvæmdastjóri kirkjuráðs á þessu ári eftir eitt og hálft ár í starfi. Í viðtalinu lýsir hún erfiðum samskiptum við biskup.

„Það fyrsta sem ég vissi um þetta mál var að Agnes var mjög þreytt og hún þurfti að fara í hvíld til Svíþjóðar. Við héldum að hún væri farin í frí í nokkrar vikur. Þetta var í september árið 2015,“ segir Ellisif Tinna.

Þegar hún fór yfir fjármálin sá hún að Agnes hefði fengið háar dagpeningagreiðslur vegna ferðarinnar.

„Seinna útskýrði hún þetta sem svo að hún hefði verið að skrifa hirðisbréf. En þetta mál var ekki á mínu forræði þótt ég geti sagt að þetta hafi að mínu mati verið fráleitt,“ bætir Ellisif Tinna við.

Karl Sigurbjörnsson, fyrrverandi biskup Íslands, útskýrir hvað hirðisbréf er með þessum hætti þegar hann sendi slíkt frá sér árið 2001. „Sú venja er forn að biskup sendi kirkju sinni hirðisbréf, til að uppörva, hvetja og áminna söfnuð sinn, að hætti postulanna.“

Sjálf svaraði Agnes Stundinni með þessum hætti: 

Biskup fór til Svíþjóðar dagana 12. september til 2. október 2015 og nýtti dvölina í að vinna að hirðisbréfi sínu ásamt fleiri skrifum. Greiðslur dagpeninga, þ.m.t. kostnaður vegna fæðis og gistingar, voru inntar af hendi í samræmi við reglur um greiðslu ferðakostnaðar vegna ferðalaga á vegum ríkisins og var kostnaðurinn í heild kr. 923.083.

Auglýsing

læk

Instagram