Bjarni Benediktsson vissi ekki að hann ætti hlut í félagi í skattaskjóli, taldi það vera í Lúxemborg

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, vissi ekki að hann ætti hlut í félagi sem var skráð á Seychelles-eyjum. Hann taldi að félagið væri skráð í Lúxemborg. Þetta kemur fram í yfirlýsingu á Facebook-síðu Bjarna.

Bjarni og Ólöf Nordal, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og innanríkisráðherra tengjast aflandsfélögum í skattaskjólum. Áður hafði komið fram að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra tengdist slíku félagi. Þetta kom fram á Eyjunni í kvöld.

Samkvæmt Eyjunni eru nöfn nokkur hundruð Íslendinga að finna á listum yfir nöfn þeirra sem átt hafa aflandsfélög eða bankareikninga í skattaskjólum. Margir þeirra eru sagðir þjóðþekktir.

Um tvo lista er að ræða. Skattrannsóknarstjóri hefur keypt gögn með listum yfir íslenska aðila sem áttu eignir í erlendum skattaskjólum og hefur samkvæmt Eyjunni unnið úr þeim að undanförnu.

Hinn listinn hefur samkvæmt Eyjunni verið unnin á vegum samtaka blaðamanna víða um heim en Reykjavik Media, nýtt fyrirtæki Jóhannesar Kristjánssonar fréttamanns kemur að málinu hér á landi.

Bjarni fer yfir málið á Facebook-síðu sinni og segist hafa keypt þriðjungshlut í eignarhaldsfélagi sem Landsbankinn í Lúxemborg hafði stofnað fyrir viðskiptafélaga sinn um kaup á fasteign í Dubai fyrir tíu árum. Hluturinn kostaði tæpar 40 milljónir króna.

„Ég gerði grein fyrir kaupum á félaginu og niðurlagningu þess gagnvart íslenskum skattyfirvöldum og hef alla tíð staðið í þeirri trú að félagið ætti varnaþing í Lúxemborg,“ segir hann.

Það var ekki fyrr en mér barst ábending frá erlendum blaðamanni að ég komst að því að svo hefði ekki verið, en umrætt félag Falson & Co, var skráð á Seychelles-eyjum. Það hafði þó engin áhrif í skattalegu samhengi.

Bjarni sagðist í Kastljósi 11. febrúar í fyrra hvorki eiga eignir né hafa átt viðskipti í skattaskjólum. „Þessi svör gaf ég eftir bestu vitund, enda taldi ég mig aldrei hafa átt neitt á aflandssvæði,“ segir hann.

„Ég vil eins og aðrir hafa það sem sannara reynist og þykir þetta miður, en vil jafnframt ítreka að þessi viðskipti mín voru ekki í skattaskjóli, enda gefin upp á Íslandi.“

Bjarni segir að eini tilgangur félagsins hafi verið að halda utan um eignina í Dubai. „En svo fór að við tókum aldrei við henni. Ákveðið var að ganga út úr kaupunum árið 2008 og árið 2009 var málið gert upp með tapi og félagið sett í afskráningarferli,“ segir hann.

„Það hafði engar tekjur, skuldaði ekkert, tók aldrei lán, átti engar aðrar eignir, hvorki fyrr né síðar og hafði enga starfsemi. Við gildistöku reglna um hagsmunaskráningu þingmanna átti ég því hvorki hlut í félagi í atvinnurekstri né aðrar fasteignir en húsnæði til eigin nota. Rétt er að taka fram að um þessi fasteignakaup hefur áður verið fjallað í fjölmiðlum árið 2010.“

Yfirlýsingu Bjarna má sjá hér fyrir neðan

Að gefnu tilefni vil ég taka eftirfarandi fram: Fyrir tíu árum keypti ég fyrir tæpar 40 milljónir króna þriðjungshlut…

Posted by Bjarni Benediktsson on Tuesday, March 29, 2016

Auglýsing

læk

Instagram