Björgunarsveitir kallaðar út til að leita að Arturi í vesturbæ Kópavogs

Formleg leit að Artur Jarmoszko er við það að hefjast. Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglu.

Byrjað verður að leita í vesturbæ Kópavogs en notast var við upplýsingar úr símagögnum sem lögreglan hefur aflað til að staðsetja leitina. Lögreglan hefur fundað með Landsbjörgu og hafa björgunarsveitir verið kallaðar út til aðstoðar.

Þá hefur Vísir eftir svæðisstjórn Landsbjargar að einnig verði leitað við strandlengjuna frá Gróttu og að Álftanesi. 80 björgunarsveitarmenn taka þátt í leitinni til að byrja með og notast verður við báta og dróna.

Sjá einnig: Artur tók út alla peningana sína daginn sem hann hvarf

Þriðjudaginn 28. febrúar tók Artur strætó í miðbæ Reykjavíkur. Í frétt Stöðvar 2 kom fram að fjölskylda hans hafi fengið þær upplýsingar frá lögreglu að sama dag hafi hann tekið út alla peningana sem hann átti inni á reikningi.

Artur sást síðast í eftirlitsmyndavél rétt fyrir miðnætti þetta kvöld og rúmum tveimur tímum síðar er slökkt á farsíma hans. Hann hefur ekki notað greiðslukort sitt á þeim tólf dögum sem hans hefur verið saknað, eins og Nútíminn greindi frá á föstudag.

Artur er 25 ára gamall og flutti til Íslands frá Póllandi fyrir fimm árum. Tveir bræður hans ásamt fleiri fjölskyldumeðlimum búa hér á landi en foreldrar hans búa í Póllandi.

Artur er grannvaxinn, dökkhærður með stutt hár, 186 sentimetrar á hæð og með græn augu. Talið er að hann sé klæddur í svarta úlpu eða mittisjakka, bláar gallabuxur og hvíta strigaskó.

Þau sem geta gefið upplýsingar um ferðir Arturs, eða vita hvar hann er að finna, eru vinsamlegast beðin um að hafa samband við lögregluna í síma 444-1000. Upplýsingum má einnig koma á framfæri í tölvupósti á netfangið gudmundur.pall@lrh.is eða í einkaskilaboðum á fésbókarsíðu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Auglýsing

læk

Instagram