Björk grét í viðtali: Gerði nýju plötuna í ástarsorg

Björk Guðmundsdóttir grét í viðtali við tónlistarsíðuna Pitchfork þegar hún ræddi sambandslit sitt og listamannsins Matthew Barney. Ný plata Bjarkar kom út í vikunni, tveimur mánuðum of snemma, og sambandsslitin veittu henni innblástur fyrir plötuna.

Í viðtali við Pitchfork segir Björk að sambandsslitin hafi verið það sársaukafyllsta sem hún hefur nokkurn tíma uppifað.

Þegar ég gerði þessa plötu hrundi allt. Ég átti ekki neitt. Þetta var það sársaukafyllsta sem ég hef nokkurn tíma upplifað. Eina leiðin til að takast á við það var að byrja að útsetja strengi. Ég ávað að verða fiðlunörd og útsetti allt fyrir 15 strengi og gekk lengra í því en ég hef nokkurn tíma gert.

Björk grét í viðtalinu og sagði erfitt að tala um sambandsslitin en benti á að textar plötunnar segi alla söguna.

„Það er mjög erfitt fyrir mig að tala um þetta. Þetta er allt í textunum. Ég hef aldrei samið svona texta, þeir eru svo táningslegir. Svo einfaldir. Ég var fljót að semja þá en ég eyddi miklum tíma í að fínpússa þá. Það er erfitt fyrir mig að tala um þetta — ómögulegt. Fyrirgefðu,“ sagði hún.

Björk og Matthew Barney voru saman í meira en áratug og eiga saman dótturina Ísadóru. Björk hefur kallað plötuna ástarsorgarplötu og segir í viðtalinu á Pitchfork að hún eigi örugglega eftir að gráta á sviði þegar hún flytur lögin af plötunni.

Auglýsing

læk

Instagram