Dularfullur prakkari gerði Hauk að aðdáanda Creed og Nickelback: „Þetta er mjög skepnulegt grín“

Vinir Hauks Viðars Alfreðssonar, starfsmanns Íslensku auglýsingastofunnar og annars stjórnanda hlaðvarpsins Í frjettum er þetta elzt, ráku eflaust upp stór augu þegar lagalistar með bestu lögum hljómsveitanna Nickelback og Creed birtust á Spotify-aðgangi hans í vikunni. Haukur hefur ekki farið leynt með andúð sína á svokölluðu handboltarokki og þessar tvær hljómsveitir eru einmitt fánaberar þessarar umdeildu tónlistarstefnu.

Í samtali við Nútímann segist Haukur ekki hafa hugmynd um hver stendur á bakvið grínið en prakkarinn útbjó þrjá lagalista á aðgangi Hauks: Nickelback Greatest Hits, Creed – Lög sem koma mér í gírinn og Best of Fred Durst en sá síðastnefndi er söngvari hljómsveitarinnar Limp Bizkit. Grínið er sérstaklega miskunnarlaust í ljósi þess að þessar hljómsveitir eru jafnan taldar þær verstu í heimi.

Málið er dularfullt enda urðu listarnir til um klukkan 23 á fimmtudagskvöldi, þegar Haukur sat í makindum sínum heima hjá sér að horfa á sjónvarpið. En hvernig varð honum við?

„Það sem ég upplifði var hrein aðdáun. Þetta er mjög skepnulegt grín sem ræðst gegn því sem mér er kærast — smekkvísi minni,“ segir Haukur. „En um leið er það svo óaðfinnanlega útfært að það er ekki möguleiki fyrir mig að finna út hver stendur á bak við sprellið.“

Haukur bætir við að listarnir séu að sjálfsögðu öllum opinberir, sem kórónar niðurlæginguna. Hann grunar að fyrrverandi vinnufélagar séu á bakvið þetta miskunnarlausa grín en hann starfaði áður sem blaðamaður á Vísi og hugmyndasmiður á auglýsingastofunni Brandenburg.

„Ég útiloka það ekki að ég sé ennþá loggaður inn á Spotify í einhverri vinnutölvunni í Skaftahlíðinni, frá því ég var að vinna á fréttastofunni fyrir fjórum árum,“ segir Haukur.

Spjótin beinast þangað, enda vakti ég usla með níðgrein minni um handboltarokkarana á þeim vinnustað. Þannig að þetta gæti vel verið hefnd.

Haukur vísar hér í grein sem hann skrifaði undir fyrirsögninni: Handbolti í Skaftahlíð þar sem hann sagði frá því að þrír samstarfsmenn hans hafi lýst dálæti sínu á Creed. „En svo eru hlutir sem við sammælumst öll um að séu slæmir. Nasismi, hælsæri, að drekka appelsínusafa eftir tannburstun, já og hljómsveitin Creed. Það hélt ég að minnsta kosti,“ sagði hann í greininni en Nickelback og Fred Durst komu einnig við sögu.

Það er því eðlilegt að starfsmenn á fréttastofu Vodafone, áður 365, liggi undir grun. Ekki má þó útloka starfsfólk á Brandenburg en þar starfa annálaðir vinnustaðargrínistar. Skemmst er að minnast þess þegar Haukur varð fyrir tilstilli þeirra heimsfrægur eftir blund sem hann fékk sér í sakleysi sínu eftir hádegismat í vinnunni.

„Já, ég hætti þar fyrir áramót og var með vinnutölvu hjá þeim sem ég skilaði. Það er auðvitað séns á að ég hafi gleymt að logga mig út af Spotify í þeirri tölvu, en Brandenburgarar játuðu hvorki né neituðu þegar ég þjarmaði að þeim — sem er auðvitað besta leiðin til að kvelja mig, hvort sem þau gerðu þetta eða ekki,“ segir Haukur.

Nafnlausum ábendingum um hver er á bakvið þetta magnaða grín má koma á framfæri til Nútímans.

Auglýsing

læk

Instagram