Dunkin Donuts seldi kleinuhringi fyrir milljónir fyrsta daginn: Milljónir hitaeininga runnu ofan í fólk

Um 12 þúsund kleinuhringir seldust á Dunkin Donuts í gær en þá opnaði fyrsti staðurinn hér á landi við Laugaveg. Þetta kemur fram á Vísi.

Kleinuhringurinn kostar 300 krónur sem þýðir að gestir staðarins versluðu þetta góðgætið fyrir 3,6 milljónir.

Miðað við þessar tölur má gera ráð fyrir því að rúmlega fjórar milljónir hitaeininga hafi runnið ofan í fólk, þennan fyrsta dag.

Allar upplýsingar um næringu kleinuhringjanna eru birtar á vef Dunkin Donuts og 340 hitaeiningar eru að meðaltali í hverjum kleinuhring, samkvæmt 25 kleinuhringja slembiúrtaki.

Meðalmanneskjan brennir 100 hitaeiningum á 15 mínútum á röltinu. Ef þetta fólk drífur sig ekki í ræktina mun það taka meira en ár að brenna þessum hitaeiningum.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri 10-11, segir í samtali við Vísi að rúmlega 70 manns hafi verið í röð þegar staðurinn lokaði klukkan tíu í gærkvöldi.

„Þannig að við gerðum eins og er oft reglan hjá Dunkin’, þá lokuðum við fyrir drykki og samlokusölu en allir sem voru í röðinni fengu að koma inn og kaupa kleinuhringi. Þess vegna vorum við ekki að loka fyrr en þrjátíu til fjörtíu mínútum síðar,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram