Fann stolinn jólapakka í beði við Kringlumýrarbraut, Rán fær pakkann sinn fyrir jól

Jólapakki sem stolið var úr bíl fyrir nokkrum mánuðum mun komast í réttar hendur fyrir jól. Guðlaug Guðjónsdóttir, starfsmaður Reykjavíkurborgar, fann pakkann þegar hún var að klippa beð við Kringlumýrarbraut og hafði upp á sendanda hans á Facebook.

Pakkinn var í svörtum ruslapoka í miðju beðinu. Í pokanum var meðal annars varadekk og verkfæri til að skipta um dekk. Pakkinn var vel með farinn og taldi hún því að hann væri ekki frá síðustu jólum.

Hún segir að það kenni ýmissa grasa í beðum borgarinnar.

Þarna fann ég poka með dóti og sá strax að þetta var þýfi.

Guðlaug ákvað að birta myndir af pakkanum á Facebook og var sendandi pakkans fundinn eftir 45 mínútur.

„Mér finnst þetta ótrúlega skemmtilegt og maður veit að eitthvað lítið barn fær pakkann sinn,“ segir hún

Starfsmenn borgarinnar finna að sögn Guðlaugar ýmislegt við vinnu sína í beðum borgarinnar, til að mynda sprautur og fíkniefni. Í fyrra fundu starfsmenn meðal annars poka með kennslubókum í lögfræði.

Bækurnar voru merktar og gat starfsfólkið því haft upp á eiganda þeirra. Í ljós kom að nemandinn, ung kona, hafði geymt bækurnar í geymslu ömmu sinnar og hafði ekki hugmynd um að þeim hefði verið stolið.

Auglýsing

læk

Instagram