Ferðagufubað Ólafs Ragnars selt á markaði

„Þetta eru djúpar geymslur,“ segir Jóhann Ævar Grímsson, þróunarstjóri hjá Saga Film og einn af höfundum Nætur-, Dag- og Fangvaktarinnar.

Ýmsir munir úr sjónvarpssögunni verða seldir á morgun milli klukkan 13 og 17 á flóamarkaði Saga Film í myndveri fyrirtækisins á Laugavegi 176. Ferðagufubað Ólafs Ragnars úr Dagvaktinni verður meðal annars boðinn til sölu en flestir ættu að muna eftir þegar Ólafur svitnaði í gufunni á meðan hann tæmdi nokkra ískalda. Jóhann Ævar telur að ferðagufubaðið virki:

Það var allavega keypt nýtt á sínum tíma og allur búnaður er í kassa sem fylgir með. Síðan er meira að segja bleikur kollur þarna sem ætti eiginlega að fylgja með. Þú þarft að hafa verið helvíti duglegur í hnébeygjunum til að endast á hækjum þér í blússandi gufu.

Ýmislegt annað verður til sölu á flóamarkaðnum. Svo sem ýmsir búningar sem hafa safnast úr Spaugsstofunni, gamla bláa fótanuddtækið, gamlar rafa eldavélar, hjólastólar, derhúfur úr Afa, gömul útvörp, sjónvörp, plötuspilarar, Star Wars og Action Man-leikföng ogg sitthvað fleira. „Og mynd af blikkandi Pútín sem birtist í Spaugsstofunni og sómir sér vel í hvaða piparsveinaíbúð sem er. Annars er alltaf að bætast í úrvalið,“ segir Jóhann Ævar léttur.

Auglýsing

læk

Instagram