Geir Þorsteinsson hættir við framboð til formanns KSÍ

Geir Þorsteinsson, formaður KSÍ, hefur ákveðið að gefa ekki kost á sér til endurkjörs á næsta ársþingi KSÍ. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem Geir birtir á vef KSÍ.

Í yfirlýsingunni segir Geir að starfið hafi verið fjölbreytt og skemmtilegt en um leið krefjandi en hann hefur verið formaður frá árinu 2007. „Góðir stjórnunarhættir kalla á endurnýjun í forystu samtaka eins og KSÍ,“ segir hann.

Eftir vandlega íhugun hef ég ákveðið að gefa ekki kost á mér til endurkjörs á næsta ársþingi og bið samstarfsfólk í KSÍ, aðildarfélög KSÍ og forystumenn íslenskra knattspyrnufélaga að virða ákvörðun mína og sameinast um að kjósa nýjan formann íslenskri knattspyrnu til heilla.

Hann segist vera stoltur af starfi sínu og framlagi til íslenskrar knattspyrnu. „Og hef ávallt haft hagsmuni heildarinnar í huga,“ segir hann.

Guðni Bergsson, fyrrverandi atvinnumaður í knattspyrnu og lögfræðingur, staðfesti framboðs sitt til formanns KSÍ um miðjan desember. Björn Einarsson, formaður Víkings, íhugar einnig framboð til formanns.

Auglýsing

læk

Instagram