Gengur hringinn í kringum landið með hjólbörur til styrkar Krabbameinsfélaginu

Hugi Garðarsson hyggst ganga hringinn í kringum landið til styrktar Krabbameinsfélagi Íslands. Hugi, sem er 21 árs gamall, gengur til að heiðra minningu ömmu sinnar sem lést úr krabbameini árið 2014. Þetta kemur fram á vef Krabbameinsfélagsins.

Ferðalag Huga hófst fyrr í dag er hann lagði af stað frá Skógarhlíð í Reykjavík. Hann gerir ráð fyrir því að gangan, sem er á bilinu 3000 – 3500 kílómetrar, muni taka um 100 daga og á leiðinni muni hann heimsækja um 70 sveitarfélög.

Hugi mun ferðast með hjólbörur en í þeim mun hann geyma nauðsynjar eins og tjald, svefnpoka og mat ásamt bókum og gítar sem hann spilar á daglega. „Ef ég geng með hjólbörurnar eins og ég sé að hella úr þeim þá fæ ég ekki verki í axlirnar,” segir Hugi í tilkynningu frá Krabbameinsfélaginu.

„Það er miklu auðveldara að labba með hjólbörur ef maður lyftir þeim upp og allur þunginn hvílir á dekkinu. Með hjólbörum næ ég léttilega að ganga allt að 35 kílómetra á dag, en án þeirra eru það aðeins 20-25 kílómetrar.“

Hægt verður að fylgjast með ferðum Huga á Facebook.

Auglýsing

læk

Instagram