Gunnar Þór sér eftir að hafa skráð „HÚH!“ hjá Einkaleyfastofu: „Mér hefur verið hótað“

Gunnar Þór Andrésson sér eftir að hafa skráð „HÚH!“ sem orðmerki og skilur þá sem hafa gagnrýnt hann fyrir að einkavæða almenningshugtak og mælast til þess að Hugleikur Dagsson láti af sölu bola merktum upphrópuninni. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Gunnari sem birtist á vef RÚV.

Gunnar Þór segir frá tildrögum þess að hann skráði „HÚH!“ sem orðmerki hjá Einkaleyfastofu í yfirlýsingunni. Hann segir ólíklegt að fatnaður sem hann hefur undirbúið verði framleiddur, í ljósi þess sem undan er gengið.

„Þó vil ég taka fram að þankagangur minn á þessum tíma var að verja frítíma mínum í þetta verkefni og tilgangur minn með skráningunni var að auka líkurnar á því að vel tækist til,“ segir hann í yfirlýsingunni.

„Ég taldi að ef verkefninu mínu gengi vel gæti tvennt mögulega gerst. Annaðhvort myndi einhver stærri aðili fara að gera það nákvæmlega sama og ég hugðist gera eða einhver myndi banna mér það á grundvelli einkaréttar. Í raun og veru var ég m.a. að reyna að koma í veg fyrir að lenda í þeirri aðstöðu sem Hugleikur Dagsson lenti í af mínum völdum.“

Sjá einnig: Hópur grínista grillaði Hugleik Dagsson á afmælinu hans, sjáðu uppistandið í heild sinni

Gunnar Þór, sem er 35 ára gamall og starfar sem grunnskólakennari og körfuboltadómari, segist í yfirlýsingunni hafa verið þjófkenndur þrátt fyrir að hafa engu stolið. „Er þetta í fyrsta skipti sem ég hrindi hugmynd af þessum toga í framkvæmd,“ segir hann og bætir við að hann skilji að hluta til þá gagnrýni sem framtak hans hefur fengið.

„Einkum þá gagnrýni sem lútir að því að almenningshugtak hafi verið einkavætt. Hafði ég hreinlega ekki leitt hugann að þessu. Jafnframt skil ég þá gagnrýni sem snýr að því að hafa beðið Hugleik að láta af sölu bolanna. Mun ég taka þetta verkefni mitt til endurskoðunar en ég skal fúslega viðurkenna að ég sé eftir því að hafa lagt af stað í þessa vegferð í ljósi þeirrar gagnrýni sem ég hef fengið.“

Gunnar Þór segist hafa orðið fyrir miklu áreiti út af þessu máli og fengið mörg andstyggileg skilaboð. „Þá hefur nafni mínu verið úthúðað í athugasemdakerfi landsins og einnig út fyrir landsteinana,“ segir hann í yfirlýsingunni.

„Mér hefur verið hótað, ég er kallaður öllum illum nöfnum og einhverjir hafa séð ástæðu til þess að pósta heimilisfangi mínu og símanúmeri. Ég skal alveg viðurkenna að ég hef tekið þetta nærri mér enda óvanur því að nafn mitt sé í opinberri umræðu. Enn fremur er mér ljóst að það sem fer á veraldarvefinn hverfur ekki.“

Gunnar harmar að Hugleikur hafi ekki haft samband við sig áður en málið fór í fjölmiðla. „Upplifun mín var sú að hann lýsti mér með niðrandi hætti. Það að hann kaus að fara til fjölmiðla þykir mér miður og það sé gert á kostnað æru minnar og persónu,“ segir hann.

„Þó vil ég hrósa honum með að ánafna helmingnum af ágóða hans af sölu bolanna til Krabbameinsfélagsins. Það er að minnsta kosti gott að vita að þessi uppákoma hafi leitt til einhvers góðs. Ég vona að félagið muni halda áfram að njóta góðs af sölu bolanna um lengri tíma en ég hef að minnsta kosti ákveðið að aðhafast ekkert frekar í þessu máli.“

Auglýsing

læk

Instagram