Heimir hitti fjölskylduna í stúkunni fyrir leikinn: „Það eru mikilvægari hlutir í lífinu en fótbolti”

Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari fékk sér sæti í stúkunni með fjölskyldu sinni fyrir leik Íslands og Króatíu í gær. Það vakti mikla athygli enda óvanalegt að sjá á svona stóru sviði í fótboltaheiminum.

Heimir segir að hann hafi haft mikið að gera dagana fyrir leikinn og hafi ekkert getað hitt fjölskylduna. Hann hafi séð að þau sátu nálægt vellinum og hafi því ákveðið að nýta tækifærið og setjast hjá þeim.

Sjá einnig: Heimir Hallgrímsson um Instagram-æðið: „Held að þeir sem eru þar, eru hvort sem er í því alla daga“

„Við vorum að fara yfir það hvernig við ætluðum að vinna leikinn. Það er margt mikilvægara í lífinu en fótbolti. Við tökum lífinu eins og það á að vera og reynum að finna þau gildi sem gefa okkur mest. Eitt af því er fjölskyldan,“ sagði Heimir.

Óvíst er hvor að Heimir verði áfram landsliðsþjálfari Íslands en eftir leikinn í gær sagðist hann vera stoltur af strákunum og að hann væri í besta starfi í heimi. Hann ætlar nú að taka sér viku í það að velta framtíðinni fyrir sér.

„Við báðum strákana um það fyrir leik að skilja allt eftir hér í Rostov og þeir gerðu það. Það var ekki mikið eftir á batteríunum í leikslok. Við erum allir saman í þessu, leikmenn sætta sig við það hvernig við spilum og vinna sem einn utan vallar sem innan. Ég get ekki verið stoltari af strákunum en ég er núna,“ sagði Heimir.

Auglýsing

læk

Instagram