Heitasti dagur sumarsins í Reykjavík: Hitinn mældist 14,2 gráður

Hit­inn í Reykja­vík mæld­ist 14,2 gráður klukkan átta í morgun en það er hæsti hiti ársins í Reykjavík. Áður hafði hann hæstur orðið 13,4 stig.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur bendir á þetta á Facebook-síðu sinni en hann segir að ástæðan sé ekki glampandi sól, enda sé jafnskýjað og aðra daga þetta sumarið.

„Málið er að loftið er hlýrra, langt að komið með gamla felli­byln­um Chris, en ekki síður að and­var­inn er aust­læg­ur og loftið kem­ur því ekki beint af svölu haf­inu,“ skrif­ar Ein­ar.

Elín Björk Jónsdóttir, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands segir í samtali við Vísi í dag að frá og með morgundeginum muni birta til í flestum landshlutum.

„Í næstu viku er spáð hæglætisveðri á öllu landinu. Þá er útlit fyrir að það verði væta til að byrja með á Norðausturlandinu á mánudag. Svo verður hægviðri og bjart með köflum. Það ætti að sjást til sólar í flestum landshlutum frá þriðjudegi og fram á fimmtudag. Svo er útlit fyrir rigningu á öllu landinu á föstudag,“ segir Elín við Vísi.

Hún segir þó að ólíklegt sé að ný hitamet verði slegin á höfuðborgarsvæðinu en það muni fara að sjást meira til sólar.

„Það er ekki útlit fyrir stórar breytingar. Við sjáum ekki fram á mjög hlýtt loft yfir landinu. En það er vissulega minna um lægðargang í spánum núna næstu vikur en verið hefur,“ segir Elín Björk við Vísi.

Auglýsing

læk

Instagram