Helgi Pírati segir ákærur fyrir hatursorðræðu hættulegar: „Þær draga ekki úr hatrinu“

Helgi Hrafn Gunnarsson, fyrrverandi þingmaður Pírata, segir ákærur fyrir hatursorðræðu, meðal annars á hendur Pétri Gunnlaugssyni á Útvarpi Sögu, séu hættulegar og að það væri stórslys fyrir tjáningarfrelsið ef hinir ákærðu verði sakfelldir. Þetta segir Helgi í pistli á Facebook-síðu sinni.

Vísir fjallaði í dag um samtöl Péturs við hlustendur Útvarps Sögu sem hann er ákærður fyrir. Þar var Hinsegin kennslu barna í Hafnarfirði meðal annars líkt við barnaklám.

Sjá einnig: Sjö hrikalegustu ummælin frá hlustendum Útvarps Sögu um hinseginfræðslu

Helgi Hrafn segist ekki vera að taka undir þau sjónarmið sem koma fram í þessum „nautheimskulegu samtölum“. „Þótt ég hafi hangið á internetinu í sirka tvo áratugi og tekið þátt í trúarbragðaumræðu árum saman, þá eru þetta með þeim allra heimskulegustu samskiptum sem ég hef lesið,“ segir hann.

En þessar ákærur eru beinlínis hættulegar. Þær sannfæra engan, þær draga ekki úr hatrinu heldur þvert á móti blæs þeim byr undir báða vængi.

Helgi segist átta sig á því að þessi orð séu mjög særandi. „En í landi þar sem á að ríkja tjáningarfrelsi hreinlega verður það að vera löglegt,“ segir hann.

„Sem dæmi; hvað ef við verðum vitni að orðræðu hjá Útvarpi Sögu sem svipar til nasisma? Má þá segja það upphátt án þess að fá ákæru frá Útvarpi Sögu? Hvað með fólkið sem kallar aðra rasista? Á það að þola ákærur af hálfu þeirra sem ekki telja sig rasista?

Hvað með listann yfir rasistana á dögunum sem nokkrir einstaklingir misstu vitið af ótta yfir? Ætti að ákæra fólk fyrir slíka lista? Ef ekki, þá getum við ekki leyft okkur að hafa lög sem ákæra fyrir svona lagað.“

Helgi segist vera alveg jafn móðgaður og hver annar yfir þessum fáránlegu samskiptum. „En þau eru samt bara það; rosalega særandi og móðgandi. Það þýðir ekki að það dragi úr hatrinu eða heimskunni að fara með málið í dómstóla,“ segir hann.

„Samfélagið ræður alveg við svona heimskuleg sjónarmið. Við erum löngu komin fram úr því að þurfa að draga fólk fyrir dómstóla fyrir að segja nautheimskulega hluti sem engan meðbyr fá í samfélagi viti borins fólks.“

Auglýsing

læk

Instagram