Hrefna Rósa Sætran, kokkur og veitingahúsaeigandi, deilir ansi skemmtilegri sögu á Facebook um ófarir sínar þegar hún ætlaði að panta sér pitsu á dögunum.
Hrefna Rósa hafði séð mynd sem leikkonan Saga Garðarsdóttir birti á Facebook. Í textanum við myndina sagðist Saga, sem býr á Akureyri um þessar mundir, hafa sótt Greifa-appið og pantað pitsu með beikoni og eggi.
„Ég bara COOL nýr pizzustaður, sæki appið, panta pizzu og við krakkarnir bíðum spennt,“ segir Hrefna og heldur áfram:
Svo um klukkan 18, alveg klukkutíma eftir að ég panta, hringir síminn og Greifinn er á hinni línunni. Gæinn bara: „Heyrðu, við sendum ekki á Fossagötu“. Ég bara: „Ha? hvaða rugl er það? Fossagata er sko í 101“. Gæinn: „Já, einmitt og Greifinn er sko á Akureyri.“
Það var því engin pitsa á boðstólnum hjá landsliðskokkinum þetta kvöldið — allavega ekki frá Greifanum.