Hvað þarf marga Þjóðverja til að losa rottu úr holræsaloki?

Auglýsing

Slökkviliðsmenn í þýska bænum Bensheim þurftu að rétta töluvert smávaxnari og loðnari einstakling en þeir eiga að venjast hjálparhönd á sunnudag þegar þeir þurftu að losa rottu sem tókst að festa sig í gati á holræsaloki.

Rottan virðist hafa slegið slöku við í ræktinni í myrkasta skammdeginu og orðið ögn stærri en hún gerði ráð fyrir. Afleiðingin varð sú að afturendi hennar fylgdi ekki á eftir þegar hún ætlaði að stinga sér í gegnum gat á holræsalokinu. Þar sat hún því föst, þrátt fyrir að gera allt sem í hennar valdi stóð til að losa sig.

En sem betur fer áttu góðhjörtuð börn leið hjá sem gátu ekki hunsað neyð rottunnar og kölluðu á hjálp. Að minnsta kosti átta slökkviliðsmenn mættu á staðinn og notuðu stór og mikil verkfæri til að lyfta lokinu, halda því uppi og losa litlu lappirnar á greyinu úr gatinu, áður en hún var frelsuð á ný, alveg ómeidd.

Auglýsing

Hjálparstarfsmenn sem sinna dýravernd sáu að mestu um björgunaraðgerðina, en þeir nutu aðstoðar slökkviliðsmanna úr sveit sjálfboðaliða. Þeir segjast ekki gera neinn greinamun á dýrum og aldrei drepa dýr, heldur hjálpa þeim bara.

Björgun rottunnar hefur vakið mikla athygli á netinu og margir fagna því að sjá dýr sem margir líta hornauga fá svo miskunnsama meðferð. Björgunarmennirnir sjálfir skilja samt ekki alveg hvers vegna þessi björgun hefur vakið svo mikla athygli, því hópurinn bjargaði yfir 2500 dýrum á síðasta ári, svo þeim fannst þetta bara venjulegur dagur.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram