Jón Eldon tók 36 kíló í vörina áður en hann hætti og nú vill hann hjálpa öðrum að sparka tóbakinu

Hönnuðurinn Jón Kári Eldon hefur sett upp vefinn Bagg er bögg þar sem hann birtir tölfræði yfir tíu ára neyslu sína á munntóbaki. Ár er síðan Jón hætti að nota munntóbak og nú hyggst hann hjálpa öðrum að hætta.

Hann segir líf sitt hafa batnað síðan hann hætti að taka í vörina.

Ég er við betri heilsu, laus við fíknina í munntóbak og nokkrum þúsund köllum ríkari.

Jón birtir á síðunni tölfræði yfir neyslu sína á afar aðgengilegan hátt og sýnir meðal annars að tóbaksdósirnar voru 720 á þessum tíu árum, sem íþróttafréttamanninum Henry Birgi finnst reyndar enginn árangur.

Jón hefur engu að síður reiknað út að hann hafi tekið að minnsta kosti 36 kíló af tóbaki í vörina í 18 þúsund „lummum“.

Þá hefur Jón eyddi Jón um 820 þúsund krónum í neysluna en hefur sparað um 82 þúsund krónur á þessu ári sem hann hefur verið laus við fíknina.

„Tölurnar komu sjálfum mér á óvart. Það er von mín, að neytendur munntóbaks sjái þessa vefsíðu og að hún geti hjálpað þeim að taka sömu ákvörðun og ég tók – að lifa án munntóbaks,“ segir Jón á síðunni.

Hann segir að meginmarkmið verkefnisins sé að reyna fækka neytendum munntóbaks. Sjálfur leyfði hann notendum Twitter að fylgjast með sér þegar hann hætti að nota tóbak og er í dag sannfærður um að það hafi hjálpað til.

„Því vil ég hvetja þig, kæri neytandi, til að nota þessa aðferð sem reyndist mér svo vel. Byrjaðu talninguna þína í dag og leyfðu okkur hinum að hvetja þig áfram í gegnum myllumerkið #baggerbögg,“ segir hann.

„Saman munum við kveðja munntóbaksdolluna, hornið, lummuna, baggið, brúnu tennurnar, hringlaga farið á gallabuxunum, allar buguðu sjoppuferðirnar og ekki síst öll þau 28 krabbameinsvaldandi efni sem má finna í munntóbaki.“

Auglýsing

læk

Instagram