Jón setti girðingu í kringum jólatréð í til varnar hundinum: „Hann var símígandi á dúkinn“

Eftir að hundurinn Nói var búinn að míga mörgum sinnum á dúkinn undir jólatrénu hjá fjölskyldu sinni í Kópavogi, þrátt fyrir hinar ýmsu fælur og tilraunir til að kenna honum að gera þarfir sínar á réttum stað, brá fjölskyldufaðirinn á það ráð að girða tréð af í stofunni af.

Hann deildi mynd af afrakstrinum í hópnum Skreytum hús á Facebook í gær og hafa fleiri en 1.800 manns lækað myndina.

Jón Helgason, eigandi Nóa, segir í samtali við Nútímann að þetta séu fyrstu jól fjölskyldunnar með hund. Verið er að venja hann af því að míga hér og þar í íbúðinni og eftir að jólatréð var sett upp á fyrsta í aðventu fannst honum best að skilja eftir sig gulan poll á hvíta dúknum við tréð.

Þetta fannst honum æðislegt, hann var símígandi á dúkinn. Dúkurinn var varla kominn undir tréð þegar það var komin pollur.

Fjölskyldan fór í gæludýrabúð á laugardaginn í leit að efnum sem eiga að fæla dýr frá. „Það fyndna er að honum var alveg sama, þessar fælur höfðu engin áhrif á hann,“ segir Jón.

Þegar fælurnar dugðu ekki stakk hann upp á því í gríni við fjölskylduna að fá lánaða rafmagnsgirðingu hjá tengdapabba sínum sem er mikið í hestum.

Eftir að hafa ráfað um internetið í dágóða stund í leit að ráðum fór hann í Bauhaus ásamt tveimur af börnum sínum, þeim Elvari Helga og Marínu Ingu sem eru þrettán og ellefu ára. Þar söguðu þau niður timbur og málaði Marín girðinguna þegar hún var tilbúin.

Jón setti lamir á girðinguna þannig að það er auðvelt að brjóta hana saman og stinga inn í geymslu á aðfangadagskvöld.

Þegar allt var tilbúið tók Jón mynd af girðingunni og deildi á Facebook.

„Ég er svo hissa á viðbrögðunum, það var svo einfalt að gera þetta og þetta kostaði um 3.800 krónur,“ segir Jón. Hundurinn hefur ekki farið yfir girðinguna og hafa pakkarnir og dúkurinn fengið að vera í friði. Hann segist hafa séð að margir velta fyrir sér að gera slíkt hið sama, bæði fólk sem er með hunda og þau sem eru með börn á heimilinu.

Jón, eiginkona hans og börnin fjögur hlakka til að halda fyrstu jólin með Nóa sem er af tegundinni japanese chin.

Auglýsing

læk

Instagram