Konur innan menntageirans rjúfa þögnina: „Vilja ekki einhverjar stelpur líka fara úr að ofan?“

Kynferðisofbeldi, kynferðisáreitni og mismunun viðgengst enn í skjóli þagnar. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem 737 konur innan menntageirans skrifa undir og sendu fjölmiðlum í dag. Yfirlýsingunni fylgja 53 frásagnir af kynbundinni mismunun, kynferðislegri áreitni og ofbeldi í starfi. Konurnar krefjast þess að fá að vinna sína vinnu án áreitni, ofbeldis og mismununar.

Í áskoruninni kemur einnig fram að konur hafi um árabil þagað yfir misréttinu sem þær eru beittar innan menntastofnana. Það krefjist hugrekkis að stíga fram fyrir skjöldu og segja opinberlega frá reynslu sinni.

„Þrátt fyrir að konur séu í meirihluta í skólum og öðrum menntastofnunum hafa þær þar ekki farið varhluta af þeirri mismunun sem viðgengst víða í skólasamfélaginu. Káf, ofbeldi, áreitni, yfirgangur, hunsun, meiðandi athugasemdir og smættun á vinnuframlagi kvenna – allt þetta og meira til er hluti af reynslu kvenna í menntageiranum,“ segir í yfirlýsingunni.

Ein af þeim sem leggja fram nafnlausa sögu segir frá vinsælum aðila sem ferðast á milli skóla með forvarnarfræðslu

Vinsæll aðili sem ferðast á milli skóla með forvarnarfræðslu biður t.d. kennara að vera ekki viðstaddir fræðslu til unglinga því þá muni unglingarnir ekki þora að spyrja mikilvægra spurninga. Gott og vel, en þegar þessi aðili kom með fræðslu til míns barns gerðist eftirfarandi: Það var orðið þungt loft og heitt inni í stofunni, einn strákur spyr hvort hann megi ekki fara úr peysunni og vera á hlýrabol sem hann var í undir, tveir aðrir strákar fara líka úr peysunum. Fyrirlesarinn segir með tóni sem ekki var hægt að misskilja „Vilja ekki einhverjar stelpur líka fara úr að ofan?“ Minn strákur sem þarna var segir að andrúmsloftið hafi orðið mjög skrítið og stelpum og strákum liðið vandræðalega og þarna var enginn kennari viðstaddur til að grípa inn í.

Önur kona segir frá því að hún hafi fengið starf vegna góðra brjósta

„Á fyrsta skemmtikvöldi með nýja samstarfsfólkinu segir skólastjórinn hátt og snjallt við mig, og hóp samstarfsfélaga minna, að ég hafi fengið starfið vegna góðra og stórra brjósta. Mjög vandræðalegt fyrir mig, sérstaklega svona nýútskrifuð og að reyna að líta fagmannlega út í nýja starfinu.“

 

 

Auglýsing

læk

Instagram