Lilja vill líka verða varaformaður Framsóknar

Lilja Dögg Alfreðsdóttir utanríkisráðherra hefur ákveðið að gefa kost á sér til varaformanns Framsóknarflokksins í dag. Í frétt á vef RÚV kemur fram að hún hafi tilkynnt þetta í bréfi til flokksmanna í morgun.

Þá birtir hún einnig yfirlýsingu um framboðið á Facebook-síðu sinni. Kosning hefst á flokksþingi Framsóknar klukkan hálftólf og hefst á kosningu formanns.

Eygló Harðardótt­ir, fé­lags- og hús­næðismálaráðherra, hyggst gefa kost á sér sem vara­formaður Fram­sókn­ar­flokks­ins að því gefnu að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson verði ekki endurkjörinn formaður flokksins.

Í færslu Lilju segir að alger viðsnúningur hafi orðið á Íslandi á síðustu árum, ekki síst vegna skýrrar sýnar og markvissrar stefnu Framsóknarflokksins. Á kjörtímabilinu hafi náðst góður árangur á flestum sviðum og þjóðarskútan sé komin á réttan kjöl.

„Hagvöxtur er kröftugur, atvinna er næg, staða ríkissjóðs er sterk og skuldir heimilanna eru að lækka. Ég er stolt af því að hafa tekið þátt í endurreisn Íslands á undanförnum árum, meðal annars í störfum mínum hjá Seðlabanka Íslands, Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, í vinnuhópum um Leiðréttingu og losun fjármagnshafta, sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneytinu og nú síðast sem utanríkisráðherra,“ skrifar Lilja.

Auglýsing

læk

Instagram