Meistaramánuður endurvakinn í febrúar: „Markmiðin eiga að vera smá áskorun fyrir fólk“

Meistaramánuður verður endurvakinn í febrúar eftir tveggja ára dvala. Pálmar Ragnarsson, fyrirlesari og fyrrverandi körfuboltakappi, verður forsvari verkefnisins í samstarfi við Íslandsbanka.

Meistaramánuður var áður í október en Pálmar segir að hann hafi verið færður í febrúar vegna þess að fólk setur sér markið í janúar sem það gefst svo upp á í febrúar.

„Okkur fannst febrúar vera mánuðurinn sem fólk gefst upp á áramótaheitunum og öðrum markmiðunum. Við viljum með þessu hvetja fólk til þess að halda áfram að reyna vera besta útgáfan af sjálfu sér,“ segir Pálmar.

Markmiðin eiga að vera smá áskorun fyrir fólk. Ég vil sjá fólk setja smá pressu á sig, reyna bæta sig.

Pálmar segir að strákarnir sem voru áður með Meistaramánuðinn hafi verið komnir á kaf í önnur verkefni. Þeir höfðu því ekki tíma til að sinna þessu lengur og hann var því fenginn í verkið.

„Þetta verður með sama sniði og áður. Fólk getur farið inn á heimasíðuna okkar og búið til sitt eigið markmiðadagatal og prentað út. Ef fólk vill svo nota samfélagsmiðlana þá erum við með sama myllumerki og áður: #meistaram,“ segir Pálmar. „Það getur verið gaman að sýna fólki í hverju maður er að reyna bæta sig en það er auðvitað ekki allra.“

Pálmar segist vilja hafa Meistaramánuðinn fjölbreyttari en áður með fjölbreyttum markmiðum. Sjáfur setur hann sér fjögur ólík markmið.

„Við vildum reyna að hafa mánuðinn í ár fjölbreyttari og ná til fleira fólks. Ég er með fjögur markmið en það fyrsta er að ég ætla að reyna fá sem flesta til að taka þátt í Meistaramánuði, það væri svo gaman að geta haft áhrif á sem flesta. Ég ætla að sofa í átta tíma alla daga í mánuðinum. Ég ætla að hætta að nota enskuslettur og það síðasta er að ég ætla að skrifa eina stutta sögu í viku út mánuðinn.“

Pálmar segir nóg að gera í undirbúningi fyrir mánuðinn og hann sér meðal annars um sjónvarpsþátt um Meistaramánuð á Stöð 2 sem hefja göngu sína á morgun. „Þar spjöllum við við hina ýmsu sérfræðinga í markmiðsetningu, heilbrigði og öðru sem kemur málinu við,“ segir hann.

„Undirtektirnar hafa verið magnaðar. Það eru allir mjög spenntir fyrir þessu og allir vilja að öllum gangi vel með markmiðin sín, styðja hvort annað. Mér finnst við öll vera í sama liði.“

Auglýsing

læk

Instagram