Móðir Birnu minnist dóttur sinnar í viðtali: „Hún treysti heiminum og treysti lífinu“

Sigurlaug Hreinsdóttir, móðir Birnu Brjánsdóttur, minnist dóttur sinnar í forsíðuviðtali í helgarblaði DV.

Tæpar tvær vikur eru liðnar frá hvarfi Birnu en hún fannst látin í fjörunni við Selvogsvita síðasta sunnudag. Tveir grænlenskir karlmenn sitja í varðhaldi, grunaðir um að hafa orðið henni að bana. Rannsókn málsins stendur enn yfir.

Sigurlaug, sem jafnan er kölluð Silla, segir í samtali við DV að dóttir hennar hafi mest lifað í núinu.

„Hún var ekki mjög upptekin af framtíðinni og lifði mest í núinu. Hún hafði ekki gaman af því að vera í skóla, sitja kyrr og lesa. Hún átti engu að síður auðvelt með að læra og var gríðarlega skapandi. Það sem mér fannst skemmtilegast við hana var að hún var endalaust að koma mér og öðrum á óvart,“ segir Silla í samtali við DV.

Í umfjöllun blaðsins segir að Birna hafi tekið fólki eins og það var og ekki dæmt það. Þá hafi hún ekki óttast viðbrögð fólks og sagt hug sinn en gætt þess að vera nærgætin og hlý.

„Það var enginn að fara að stjórna henni og hún stóð með sínu fólki, alltaf. Hún sat ekki hjá aðgerðarlaus ef henni fannst að sínum veitt. Hún treysti heiminum og treysti lífinu, hún var áhyggjulaus og áræðin. Hún var líka svo góð og passaði upp á tilfinningar annarra,“ segir Silla einnig í samtali við DV.

Í viðtali má einnig sjá þetta myndband sem Birna deildi á YouTube.

Hún lærði á píanó í nokkur ár og hafði gaman af því að syngja

Auglýsing

læk

Instagram